Gilsfjarðarbrú

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:37:50 (2361)


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Við undirbúning sameiningar sveitarfélaga hafa sveitarstjórnarmenn oft lagt áherslu á einhver sérstök atriði í samgöngumálum, skólamálum og fleiri málaflokkum. Af hálfu ráðuneytisins hefur það að sjálfsögðu alltaf verið gert ljóst að það geti fyrst og fremst haft áhrif í sínum eigin málaflokkum, en varðandi málaflokka sem heyra undir önnur ráðuneyti verði að leita til viðkomandi ráðuneyta. Ráðuneytið hefur hins vegar stundum skrifað viðkomandi ráðuneyti og óskað eftir að þau mál, sem sveitarstjórnarmenn hafa lagt áherslu á við sameiningu, verði tekin til athugunar. Oftast hefur hér verið um að ræða samgöngumál og þingmönnum viðkomandi kjördæmis hefur verið sent afrit af slíkum bréfum. Ég dreg hins vegar enga dul á það að jafnhliða sameiningu sveitarfélaga þyrfti að vera hægt að tryggja ákveðnar aðgerðir, einkum á sviði samgöngumála, atvinnumála og annarra byggðamála en tillögur um þetta komu einmitt fram í nýútkominni skýrslu sveitarfélaganefndar.
    Varðandi það mál, sem hv. þm. gerði hér að sérstöku umræðuefni, að fyrrv. félmrh., Alexander Stefánsson, hafi gefið einhver sérstök loforð um brú á Gilsfjörð í tengslum við sameiningu sveitarfélaga í Austur-Barðastrandarsýslu, þá liggur það alveg ljóst fyrir að í félmrn. er ekki að finna nein gögn sem styðja slíka fullyrðingu.
    Í fyrirliggjandi tillögum um langtímaáætlun fyrir árin 1991--2002 er gert ráð fyrir að lítill hluti fjárveitingar til Gilsfjarðar komi á fyrsta tímabilinu, þ.e. 1991--1994, en meginhluti fjárveitinga á öðru tímabili, 1995--1998. Fjárveitingar í gildandi vegáætlun fyrir árin 1991--1994 eru í samræmi við þetta. Hefur verið tekið mið af þessu við undirbúning verksins og er áætlað að um það bil ársvinnu vanti til að fullhanna það til útboðs, en verkið er nokkuð flókið og vandasamt. Í áðurnefndri tillögu um langtímaáætlun er gert ráð fyrir að aðeins rúmist tvö verk á liðnum Stórbrýr á öðru tímabili áætlunarinnar, þ.e. Gilsfjörður sem er áætlað að kosti 800 millj. kr. og Kúðafljót sem er áætlað að kosti um 350 millj. kr. Gert er ráð fyrir lítils háttar fjárveitingum í bæði verkin á fyrsta tímabilinu, en ekki tekin afstaða til þess hvort ætti að gera á undan eða hvort unnið yrði að báðum verkunum samtímis. Verkið um Kúðafljót er hins vegar miklum mun einfaldara í undirbúningi og unnt að ljúka hönnun þess til útboðs á skömmum tíma. Hefur því verið gerð tillaga um að hluta viðbótarfjár til atvinnuaukningar á næsta ári verði varið til Kúðafljóts. Jafnframt er undirbúningi framkvæmda við Gilsfjörð haldið áfram og við það miðað að framkvæmdum við hann verði hagað í samræmi við fyrri áætlanir. Ákvarðanir varðandi Kúðafljót tel ég að frekar geti flýtt fyrir framkvæmdum við Gilsfjörð en hitt.