Gilsfjarðarbrú

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:51:55 (2366)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að segja að mér finnst málflutningur hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar í þessu máli afar sérkennilegur og eru menn þó ýmsu vanir, að ekki sé meira sagt, þegar sá hv. þm. á í hlut. Ég fagna áhuga hans á Gilsfjarðarbrú. Við þingmenn Vesturl. höfum haldið marga fundi um það og ég minnist ekki bara funda með núv. þingmönnum kjördæmisins heldur einnig þeim sem sátu á þingi fyrir Vesturl. á fyrra kjörtímabili. Ég minnist fundar sem haldinn var í Króksfjarðarnesi fyrir allnokkrum árum þar sem þetta mál var rætt og mættu allir þingmenn Vesturl. En atvikin höguðu því þannig að ekki mætti nema einn þingmaður Vestf. einhverra hluta vegna. Áreiðanlega hafa þeir allir haft lögleg forföll, þeirra á meðal hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson.
    Það er alveg augljóst að hér er um mjög stórt verkefni að ræða og dýrt. Það er líka ljóst, sem hér hefur komið fram, að þetta verk er ekki fullhannað. Þegar verið var að ákveða í hvaða verkefni yrði ráðist fyrir þá peninga sem verða til umráða umfram það sem verið hefur á vegáætlun var það haft í huga

hvaða verkefni væru tilbúin til framkvæmda og hvar væri hægt að byrja sem allra fyrst. Fleiri sjónarmið voru vissulega höfð í huga en það réði þó kannski mestu. Þetta verkefni er ekki fullhannað. Það er ekki tilbúið til framkvæmda. Hitt er svo aftur deginum ljósara, og það veit hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þó að hann kjósi að tala á annan veg, að þær ákvarðanir sem hafa verið teknar um framkvæmdir í vegamálum tryggja og flýta og staðfesta að ráðist verður í það mikilvæga verkefni sem brú yfir Gilsfjörð er. ( ÓÞÞ: Þetta er einfaldlega lygi, hæstv. ráðherra.) ( Forseti: Má biðja þingmanninn að gæta orða sinna.)