Gilsfjarðarbrú

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 15:55:59 (2368)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég held að öllum þingmönnum ætti að vera það ljóst að það er ekki á valdi félmrn. eða félmrh. að taka ákvarðanir um vegaframkvæmdir. Í öllum tilfellum þar sem áhersla hefur verið á það lögð í sameiningarmálum sveitarfélaga hefur sveitarstjórnarmönnum ávallt verið gert það ljóst að félmrn. gæti einungis beint tilmælum til viðkomandi ráðherra og þingmanna kjördæmisins. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta komi fram.
    Varðandi þær framkvæmdir sem voru ákveðnar núna og fjármagn til vegamála, hvaða afskipti ég hefði haft af þeim málum í ríkisstjórn og hvað ég hefði lagt þar til, þá voru tvö meginmarkmið sem ég lagði áherslu á. Það var að farið yrði í framkvæmdir sem miðuðust að því að styrkja atvinnusvæði og framkvæmdir sem miðuðu að því að auðvelda sameiningu sveitarfélaga. Ég held að þegar horft er yfir þennan lista varðandi viðbótarverkefni megi finna þar mjög mörg verkefni sem miða að því að auðvelda sameiningu sveitarfélaga. Brú yfir Kúðafljót er eitt af þeim verkefnum, Snæfellsnesvegur, Hálfdán, Óshlíð, Ólafsfjarðarvegur og vegir á Austurlandi hjálpa þar vissulega til. Ég held að tekið hafi verið fullt tillit til þeirra sjónarmiða sem ég lagði sérstaka áherslu á, að framkvæmdir mundu miðast við það að auðvelda sameiningu sveitarfélaga. Ég held að öllum ætti að vera það ljóst líka að þegar ákvörðun er tekin um Kúðafljót mun það, þegar þeirri hindrun er rutt úr vegi, verða til þess að flýta framkvæmdum við Gilsfjarðarbrú.