Gilsfjarðarbrú

56. fundur
Miðvikudaginn 18. nóvember 1992, kl. 16:02:09 (2371)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að leiðrétta hv. 1. þm. Vesturl. sem í tvígang hefur farið nokkuð frjálslega með staðreyndir. Það sem ég hef gert varðandi frásögn af umræðum í þinginu er ekki annað en rekja þær umræður og þær yfirlýsingar sem ráðherrarnir hafa verið með. Ég hef dregið þá ályktun af því að það muni verða til þess að seinka Gilsfjarðarbrú. Það tel ég ekki að hv. þm. Sturla Böðvarsson geti nýtt sem tilefni til ásakana í minn garð eins og hann hefur í tvígang verið með úr ræðustól. Fremur ætti hann að reyna að hrekja mína niðurstöðu og ályktun með því að koma með nýjar upplýsingar sem leiða til annarrar niðurstöðu. Það gerði hann ekki heldur kemur hann í tvígang fram með fullyrðingar sem í fyrsta lagi ómerkja hv. 1. þm. Vestf., sem hélt því fram fyrir rúmu ári að öllum undirbúningi væri lokið og ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir á árinu 1992. Þetta liggur fyrir. Ég verð að segja að lokum, virðulegi forseti, að það horfir ekki gæfulega fyrir starfi nefndar sem á að stuðla að sameiningu sveitarfélaga þegar menn hafa beðið í sex ár eftir efndum í Austur-Barðastrandarsýslu.