Umboðsmaður barna

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:34:54 (2375)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans þó mér finnist þau valda nokkrum vonbrigðum. Sannleikurinn er sá að öll sú athugun sem hæstv. ráðherra talar um er næsta óþörf. Það liggur fyrir reynsla af þessu embætti í nágrannalöndum okkar og ég held að það sé kannski einum of langt seilst að gera könnun um gjörvalla heimsbyggð til að komast að því hvort embætti sem þetta sé nauðsynlegt. Allir sem áhuga hafa á málefnum barna telja þetta tvímælalaust nauðsynlegt. Hér er ekki um að ræða stórkostlegan kostnað. Hagsýslan skilaði áliti fyrir tveimur eða þremur árum á því hvað þetta embætti mundi kosta og talaði þá um 5 millj. kr. Það gæti hafa hækkað eitthvað. Hér er ekki um að ræða nein stórkostleg fjárútlát.
    Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði að nú fara fram um allan heim miklar umræður um réttindi barna og á þingi Sameinuðu þjóðanna var ítarleg umræða um jafnrétti barna eins og það heitir. Menn hafa smám saman gert sér ljóst að það skiptir allmiklu máli hvernig búið er að börnum og unglingum. Kjör þeirra hafa síður en svo batnað á síðustu áratugum í hinum svokallaða siðmenntaða heimi.
    Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti virkilega hugsað sér að enn eitt þing líði án þess að þetta embætti veriði stofnað. Á nýlegu þingi Barnaheilla, sem norski umboðsmaðurinn var viðstaddur, var mikið rætt um nauðsyn þess að þetta embætti yrði að veruleika. Ég leyfði mér í trausti mínu á hæstv. ráðherra að fullyrða að ég teldi að svo yrði þar sem hæstv. ráðherra hefði sýnt málinu áhuga. Ég vil því mjög gjarnan fá svör við því hvort við megum ekki eiga von á frv. á þessu þingi.