Umboðsmaður barna

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:37:20 (2376)


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég kom örlítið of seint í þessa umræðu en þó kom það mér á óvart, þegar ég var að spyrjast fyrir, að hafa ekki fengið skýlaus skilaboð um að það stæði til að stofna þetta embætti umboðsmanns barna og það frekar fyrr en seinna. Ég var líka á þessu þingi Barnaheilla 30.--31. okt. Ég heyrði ekki betur en að þar væru menn ekki í vafa um að svo yrði og hefðu eitthvað fyrir sér innan kerfisins. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmrh. hvort einhverjar efasemdir sæki á menn eða hvort hér sé aðeins um venjulegt hik í kerfinu að ræða. Ég tel að þetta sé mjög brýnt mál. Ég held að öll sú könnun sem þarf að fara fram hafi þegar átt sér stað og heimsókn norska umboðsmanns barna hafi líka verið lærdómsrík.