Ljósleiðarar

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:41:44 (2379)

     Fyrirspyrjandi (Björn Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Spurningar þær sem ég beini til hæstv. samgrh. skýra sig sjálfar og þarf ég því ekki að hafa langan formála að þeim.
    Engum blöðum er um það að fletta að lagning ljósleiðara umhverfis landið er bylting í fjarskiptamálum og meðal þess mikilvægasta sem gert hefur verið á undanförnum árum til að auðvelda byggð í landinu öllu og tryggja að allir landsmenn búi við sömu kjör að því er nýtingu fullkomnustu tækni til fjarskipta varðar.
    M.a. með þetta í huga fer ég þess á leit við hæstv. samgrh. að hann svari eftirfarandi spurningum:
  ,,1. Hvenær var ákvörðun tekin um að ráðast í að leggja ljósleiðarakerfið?
    2. Hver eru tengsl hins nýja ljósleiðarakerfis umhverfis landið við ratsjárstöðvar varnarliðsins og endurnýjum ratsjárkerfis þess?
    3. Hver er heildarkostnaður við lagningu ljósleiðara umhverfis landið?
    4. Hvernig hefur lagning ljósleiðara umhverfis landið verið fjármögnuð?
    5. Hvernig er ákvörðunum fyrir gjaldskrá fyrir afnot af ljósleiðarakerfinu umhverfis landið háttað?``