Ljósleiðarar

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:43:01 (2380)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Fyrst er spurt: ,,Hvenær var ákvörðun tekin um að ráðast í að leggja ljósleiðarakerfið?``
    Lagning ljósleiðara hófst á árinu 1985 með lögn frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði. Lagning ljósleiðara um landið var eðlileg þróun fjarskiptakerfis Póst- og símamálastofnunar. Þarfir almenna símakerfisins og þarfir stærri viðskiptavina fyrir hágæðafjarskiptaleiðir, t.d. til flutnings hljóðvarps- og sjónvarpsefnis hafa ráðið ferðinni.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hver eru tengsl hins nýja ljósleiðarakerfis umhverfis landið við ratsjárstöðvar varnarliðsins og endurnýjum ratsjárkerfis þess?``
    Með samningi árið 1989 við utanrrn. og Póst- og símamálastofnun voru varnarliðinu tryggðar fjarskipta- og flutningslínur milli allra sinna stöðva á landinu um ljósleiðarakerfið og eru þess vegna lagðar sérstakar lagnir út frá ljósleiðarakerfinu inn á allar ratsjárstöðvar varnarliðsins. Þessi samningur hraðaði uppbyggingu hringkerfisins. Auk framangreinds langlínukerfis um landið hafa verið lagðir ljósleiðarastrengir milli allra símstöðva á höfuðborgarsvæðinu með hringtengingarmöguleikum til öryggis.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hver er heildarkostnaður við lagningu ljósleiðara umhverfis landið?``
    Heildarkostnaður ljósleiðarakerfisins verður um 2,5 milljarðar kr. þegar það verður fullbyggt með öllum búnaði. Þegar er búið að taka það í notkun fyrir almenna símaþjónustu frá Reykjavík norður um land til Egilsstaða og Neskaupstaðar og nýlega frá Reykjavík suður um land til Hafnar.
    Auk þess hafa sjónvarpsleiðir verið tengdar á mörgum stöðum á landinu aðallega þó fyrir Stöð 2 þar sem Ríkisútvarpið hefur sínar örbylgjuleiðir á flestum stöðum. Lagningu aðalkerfis ljósleiðarans verður að mestu lokið innan tveggja ára.
    Spurt er: ,,Hvernig hefur lagning ljósleiðara umhverfis landið verið fjármögnuð?``
    Ljósleiðarakerfið, eins og aðrar framkvæmdir Póst- og símamálastofnunar, er fjármagnað úr rekstri fyrirtækisins og með stofnframlagi frá Atlantshafsbandalaginu.
    Í fimmta lagi ,,Hvernig er ákvörðunum um gjaldskrá fyrir afnot af ljósleiðarakerfinu umhverfis landið háttað?``
    Gjaldskrá fyrir afnot af ljósleiðarakerfinu er miðuð við tilkostnað. Er þá tekið tillit til stofnkostnaðar og áætlaðs afskriftatíma, viðhalds og rekstrar. Einnig er tekið mið af vegalengd, tíma og umferðarmagni ef ekki er um fast samband að ræða. Með tilkomu ljósleiðarans hefur þegar komið fram mikil lækkun á langlínutöxtum innan lands sem flestum landsmönnum hefur komið til góða.