Ljósleiðarar

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:47:22 (2382)

     Fyrirspyrjandi (Björn Bjarnason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans sem voru greinargóð nema að því er varðar að mínu mati fjórðu spurninguna þar sem ekki var gerð nægilega glögg grein fyrir því í svari ráðherrans hvernig skiptingu stofnkostnaðar er háttað á milli Pósts og síma annars vegar og Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins hins vegar. Það kemur fram að kostnaðurinn við þessa miklu framkvæmd er 2,5 milljarðar. Ég held að með hliðsjón af því sem kom fram í svari ráðherrans við fimmtu spurningunni sé nauðsynlegt að það liggi betur fyrir til að menn geti áttað sig á þessu máli hvernig þessari skiptingu á milli Pósts og síma annars vegar og Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins hins vegar er háttað.