Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 10:52:47 (2385)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég skrifaði formanni Stofnlánadeildar landbúnaðarins, Guðna Ágústssyni, svohljóðandi bréf í dag:
    ,,Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér fyrir aðgerðum í málefnum loðdýrabænda sem hafa þann tilgang að treysta rekstrar- og eiginfjárstöðu greinarinnar og koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot núverandi og fyrrverandi loðdýrabænda. Liður í því er að Ríkisábyrgðasjóður taki á sig þau loðdýralán sem ríkisábyrgð er fyrir. Hins vegar verði heimildar aflað til þess að Stofnlánadeild landbúnaðarins afskrifi allt að helmingi af heildarskuldbindingum vegna lána til loðdýraeldis. Áhersla er lögð á að unnið verði að þessum málum í góðri samvinnu við samtök loðdýrabænda og landbn. Alþingis en atbeini þeirra er nauðsynlegur til þess að unnt sé að ljúka málinu.
    Stjórn Stofnlánadeildar er þökkuð góð samvinna um þessi erfiðu úrlausnarefni í vissu um að samkomulag muni takast sem tryggi í senn hagsmuni deildarinnar og loðdýrabænda.``
    Ég vil svo taka það fram til viðbótar að meðan ég átti sæti í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins var tekin ákvörðun um að láta innheimtu á vöxtum og afborgunum á loðdýralánum liggja niðri um nokkur ár eða uns niðurstaða fengist um það hvernig staðið skyldi að skuldaskilum loðdýrabænda. Var þá hvort tveggja haft í huga að hagur greinarinnar kynni að vænkast vegna hækkandi verðs á loðdýraskinnum á erlendum mörkuðum en einnig var sá möguleiki að sjálfsögðu til staðar eins og nú hefur komið á daginn að viðunandi verð mundi láta standa á sér. Ég hef skilið það svo að innheimta á lánum til loðdýrabænda í Stofnlánadeild landbúnaðarins liggi niðri þangað til gengið hefur verið frá þeim ráðstöfunum sem nú eru í undirbúningi. Ég vil taka sérstaklega fram að Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur unnið markvisst að því á undanförnum mánuðum að undirbúa skuldaskil af því tagi sem hér er fjallað um og er því vel búin undir það verkefni að móta vinnureglur um þau skuldaskil sem ríkisstjórnin hefur lagt til.
    Á hinn bóginn veldur það erfiðleikum að Lífeyrissjóður bænda hefur veitt veruleg lán til bústofnskaupa á loðdýrabúum. Ég hygg að þau lán hafi verið innheimt. Það er að sjálfsögðu sérstakt mál sem nauðsynlegt er að ræða við stjórn Stofnlánadeildar en ég minni á hinn bóginn á að deildin ber ábyrgð á þessum skuldbindingum gagnvart Lífeyrissjóði bænda.