Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:05:20 (2394)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Þær umræður sem hér hafa farið fram gefa ekki tilefni til langra athugasemda af minni hálfu. Ég hef talað bæði við stjórnarformann Stofnlánadeildar og bankastjóra Búnaðarbankans um það að innheimtuaðgerðir vegna loðdýralána verði stöðvaðar og ég veit ekki betur en það verði gert. Ég spurði raunar ekki um það hvort lán vegna loðdýra í Stofnlánadeild landbúnaðarins hefðu verið innheimt að undanförnu en eins og ég sagði áðan vissi ég ekki betur en að lægi fyrir samþykkt stjórnar Stofnlánadeildarinnar um að svo yrði ekki gert fyrr en þessum ráðstöfunum yrði fram hrundið. Sú samþykkt var gerð meðan ég átti sæti í stjórn Stofnlánadeildar og henni hefur þá verið breytt ef hún liggur ekki þegar fyrir.
    Ég vil í öðru lagi taka undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e., Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, að það var auðvitað ekki við því að búast fyrr en í maímánuði á sl. ári að einhverjar ráðstafanir yrðu gerðar í málefnum loðdýrabænda. Stjórnarskiptin voru 30. apríl á sl. ári og síðasta ríkisstjórn hafði engan vilja til að koma til móts við loðdýrabændur í þessu máli.