Viðskipti Stofnlánadeildar og loðdýrabænda

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:10:41 (2397)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Þetta er nú kannski miklu alvarlegra mál en menn geti haft það í einhverjum flimtingum. Þess vegna vil ég undir liðnum um þingsköp, þar sem hæstv. ráðherra notaði sín síðustu orð á þann smekklega hátt sem hann gerði hér áðan, benda á að þar sneri hann á grófan hátt út úr mínum orðum. Ég kann að hafa sagt í fyrra skiptið þegar ég ræddi um tillögur þær sem hér eru til umfjöllunar um loðdýramál að þær hefðu komið fram í maí í fyrra en hins vegar sagði ég í seinna skiptið þegar ég nefndi þær að þær hefðu komið fram fyrir fimm til sex mánuðum síðan og hæstv. ráðherra veit mætavel að hér er verið að ræða um tillögur sem voru til mótunar á sl. vori. Að snúa því síðan upp á það að þær hefðu verið --- og fara áravillt um eitt ár að þær hefðu verið að koma fram í maí fyrir þrem missirum þegar stjórnarskiptin áttu sér stað og því hefði núv. ríkisstjórn ekki komist að málinu fyrr er argasti útúrsnúningur og hæstv. ráðherra ekki á nokkurn hátt sæmandi og á engan hátt í takt við alvöru þess máls sem hér er verið að fjalla um.