Endurskoðun laga um grunn- og framhaldsskóla

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:25:14 (2410)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Í fjarveru hv. varaþm. Einars Más Sigurðarsonar mæli ég fyrir fsp. til hæstv. menntmrh. um störf 18 manna nefndar sem vinnur að endurskoðun laga um grunn- og framhaldsskóla. Fsp. er á þessa leið:
  ,,1. Hvenær má búast við að nefnd, sem skipuð var af menntmrh. sl. vor til að endurskoða grunn- og framhaldsskólalög, skili áliti?
    2. Er fyrirhugað að nefndin skili frumvörpum að nýjum grunn- og framhaldsskólalögum?
    3. Hvert hefur verið samráð nefndarinnar við samtök kennara?``
    Það er út af fyrir sig óþarfi, virðulegi forseti, að fara ítarlega yfir aðdragandann að skipun þessarar nefndar en þó ætla ég að gera það í örfáum orðum.
    Þegar hæstv. menntmrh. tók við störfum, þá lá fyrir ítarleg stefnumótun í málefnum grunnskóla eins og annarra skólastiga undir heitinu: Framkvæmdastefna í skólamálum til nýrrar aldar. Hæstv. menntmrh. kaus að leggja þá stefnumótun til hliðar þó að unnið hafi verið að henni samviskusamlega af hundruðum og þúsundum kennara og skólamanna um allt land og um hana hefði náðst full samstaða. Hann ákvað jafnframt í ríkisstjórninni að skera niður framboð á tímum í grunnskólum og veikja það skólastarf sem þar var samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1992 og það var einnig staðfest með fjárlagafrv. fyrir árið 1993.
    Á fyrstu mánuðum starfstíma síns ákvað hann síðan eftir fjarska ruglingslegar yfirlýsingar um málefni grunnskóla og framhaldsskóla að skipa nefnd þar sem í eru hvorki meira né minna en 18 menn. Hún á að endurskoða lögin ekki aðeins um grunnskóla sem voru nýsett og voru m.a. sett með atkvæðum Sjálfstfl. á sínum tíma heldur einnig um framhaldsskóla en lögin um framhaldsskóla voru sett að atbeina Sjálfstfl. og menntmrh. Sjálfstfl., Birgis Ísl. Gunnarssonar, vorið 1988. Þetta á að endurskoða í 18 manna nefnd en þó varð þar ekki pláss fyrir neinn fulltrúa sveitarfélaganna. Það var ekki pláss þar fyrir neinn fulltrúa Kennarasamtakanna, hvorki á grunnskóla- né framhaldsskólastigi, það var ekki leitað eftir neinum tilnefningum frá þessum samtökum og það var ekkert samráð haft við þessa aðila um skipan þessarar nefndar almennt og heldur ekki þingflokka. Ég hygg að það megi líka segja að nefndin sé skipuð mjög þröngt pólitískt, óvenjuþröngt þar sem það er reynt samviskusamlega að þræða fram hjá öllum þeim sem hugsanlega hafa komið nálægt t.d. forustuverkefnum á vegum annarra stjórnmálaflokka en þeirra sem aðild eiga að ríkisstjórninni. Þessi flokkspólitíska einokun á skólakerfinu er auðvitað stórkostlega hættulegt mál út af fyrir sig. Og af því tilefni og öðru, virðulegi forseti, er þessi fsp. hér borin fram og lögð fyrir hæstv. menntmrh.