Endurskoðun laga um grunn- og framhaldsskóla

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:36:01 (2414)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Eiga grunnskólalög að ná til allra barna landsins í hvaða flokki sem foreldrarnir eru? Eiga framhaldsskólalög að ná til allra unglinga í landinu? Eiga framhaldsskólalög og grunnskólalög og skólalöggjöf yfirleitt að vera með þeim hætti að þegar í ríkisstjórn kemur ráðherra frá Sjálfstæðisflokknum þá snúi hann þar öllu við í þágu þröngra flokkshagsmuna Sjálfstfl.? Eða er það þannig að þegar ráðherra sest í störf í menntmrn. eigi hann að leita að samnefnara fyrir þjóðina alla, allt íslenska skólasamfélagið?
    Mér fannst satt að segja óhugnanlegt þegar hæstv. mennmrh. sagði frá því hér áðan að hann teldi að í rauninni væri það best að allir í nefnd sem eru að endurskoða lög um grunnskóla og framhaldsskóla væru í Sjálfstfl. Mér fannst þetta talandi dæmi um þau þröngu flokkspólitísku viðhorf sem einkenna meðhöndlun Sjálfstfl. á þessum málaflokki sem snertir þjóðina alla. Ég harma að þessi viðhorf skuli hafa komið fram með þessum hætti í orðum ráðherra og einnig í gjörðum hans.
    Hverjir eru það sem eru í skólum landsins? Börn og unglingar. Það eru í raun þau sem munu skapa framtíð þjóðarinnar. Þess vegna ber okkur að vanda okkur við ákvarðanir á þessu sviði og ekki kasta til þeirra höndunum. Þess vegna ber okkur að leita samstöðu og víkja á bug þröngum flokkspólitískum ofstækissjónarmiðum, liggur mér við að segja, á þessu sviði eins og öðrum en sérstaklega á þessu sviði, virðulegi forseti, segi ég um leið og ég þakka þau svör sem komu fram hjá hæstv. ráðherra sem ég tel að hafi út af fyrir sig staðfest það sem legið hafi fyrir í grófum dráttum í þessum efnum.