Endurskoðun laga um grunn- og framhaldsskóla

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:38:03 (2415)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Herra forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson taldi að ósamræmi væri milli þess sem ég sagði og þess sem formaður endurskoðunarnefndarinnar, hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir, hafi sagt varðandi flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Ég þekki ekki alveg, ég verð að viðurkenna það, þessa yfirlýsingu formanns nefndarinnar sem hv. þm. skýrði hér frá að það væri ákveðið að grunnskólinn skyldi fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Ég held nú að hafi hún sagt þetta þá felist ekki annað í orðum hennar en það að það sé samstaða í nefndinni um að gera þá tillögu. Það er svo eftir því sem ég hef fregnað að nefndin muni leggja það til alveg eins og sveitarfélaganefndin hefur raunar gert líka. En að sjálfsögðu bíður það lagasetningar frá Alþingi ef svo verður. ( Gripið fram í: Hver er afstaða ráðherrans?) Afstaða ráðherrans er alveg skýr. Ég hef lýst því yfir í langan tíma og löngu áður en ég varð ráðherra þessa málaflokks að grunnskólinn skyldi fluttur til sveitarfélaganna. Það er mín skoðun að það væri til bóta.
    Ég sé ekki ástæðu til að vera með neinar vangaveltur um það á hvaða verðlagi það verði gert. Það er ekki hægt að segja til um það núna.