Kennsla í táknmálstúlkun

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 11:46:23 (2418)


     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég vil aðeins vekja athygli á því að það er gert ráð fyrir því samkvæmt þessum upplýsingum að verja 1,4 millj. kr. til kennslu í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands á næsta ári. Það er mjög lítið, að ég segi ekki meira. Auk þess á að taka 1 millj. af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra sem ég hygg að sé ekki aflögufær. Ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri og skora á hæstv. menntmrh. að beita sér fyrir því að þetta fjárframlag verði hækkað. Ég bendi á að framlag til Heyrnleysingjaskólans samkvæmt fjárlagafrv. er skorið niður um 13,7 millj. kr., hvorki meira né minna. Það er lækkað um um það bil einn fimmta. Ég tel að sú lækkun sem tvímælalaust eru ákveðin rök fyrir, þá fjármuni ætti auðvitað að nota til þess að hefja kennslu í táknmálstúlkun og að styrkja Samskiptamiðstöð heyrnarlausra frekar en skera niður framlög til Heyrnleysingjaskólans fyrst og fremst til að styrkja almennt stöðu ríkissjóðs.
    Ég vil einnig benda á það að ef nauðsynlegt verður að leggja út í tækjakaup vegna kennslu í táknmálstúlkun við háskólann á næsta ári er áætlaður kostnaður við það á milli 10 og 15 millj. kr. að mati Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra. Ég tel í sjálfu sér að það sé nokkuð ríflega í lagt, það þurfi ekki svo mikla upphæð. Auðvitað mætti samnýta tæki með hljóðver og fleira með háskólanum. En það þarf örugglega einhverja fjármuni til tækjakaupa. Um leið og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin þá endurtek ég áskorun mína til hans um að beita sér fyrir því að í fjárlögunum fyrir árið 1993 verði hærri tala til kennslu í táknmálstúlkun við Háskóla Íslands á því ári.