Umhverfismat á virkjunarframkvæmdum á Jökulsá á Fjöllum

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 12:04:28 (2426)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram að þær ábendingar og athugasemdir sem hér hafa komið fram hjá hv. fyrirspyrjanda, hv. 6. þm. Norðurl. e. og hv. 10. þm. Reykv. um að það sé mikilvægt að taka tillit til umhverfissjónarmiða þegar vatnsorkan er nýtt eru sannarlega ummæli sem hægt er að taka undir. Ég vil benda á að nú er unnið að sérstöku umhverfismati á öllum virkjunarmöguleikum, sem fólgnir eru í vatnsafli, á vegum Orkustofnunar og Náttúruverndarráðs. Þá mun til skila haldið því sjónarmiði sem hv. 6 þm. Norðurl. e. nefndi að þyrfti að taka skipulega með í reikninginn þegar við metum á hvað leggja sig allar landsins ár samanlagt til virkjunarframkvæmda.
    Ég vil líka, vegna þess sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, taka skýrt fram að það er mjög mikilvægt að reyna að leita allra leiða til þess að saman geti farið umhverfisvernd og hagnýting orkulinda. Ég bendi á að þessi tvö sjónarmið þurfa alls ekki alltaf að rekast á. Því er oft haldið fram án athugunar að það sé sjálfsagt mál að þarna sé um árekstur að ræða. Svo þarf alls ekki að vera og ég vil t.d. benda á að

nýjar lausnir við gerð virkjana, m.a. með jarðgöngum í stað skurða af því að hv. fyrirspyrjandi nefndi það, hafa gefið okkur færi á því að varðveita yfirborð landsins þar sem það er verðmætt og mikils um vert með því að leiða vatnið frá lóni eða upphafsstað til virkjunarmannvirkja eftir jarðgöngum í stað skurða. Það er einmitt þessi lausn sem í senn er ódýrari og hagkvæmari frá sjónarmiði arðsemismats og náttúruverndar sem menn hafa fundið til þess að virkja Jökulsá á Fljótsdalsheiði.
    Þetta vil ég nefna af því að það er ekki skynsamlegt að gefa sér alltaf fyrir fram að þetta tvennt geti ekki samrýmst. Það er stefnan að láta þetta tvennt fara saman. Ég bendi á að í því frv. sem fyrir liggur á Alþingi um umhverfismat er sérstök upptalning á því hvaða mannvirki það eru sem eru háð umhverfismati. Ég vona sannarlega að þingið samþykki það frv.