Aðstoð við íbúa fyrrum ríkja Júgóslavíu

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 12:11:09 (2428)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Á fundi Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Genf 29. júlí um neyðaraðstoð við fórnarlömb átakanna í fyrrum Júgóslavíu tilkynnti Ísland fyrsta framlag sitt sem þá var einungis 3 millj. kr. Næst hafði ríkisstjórnin frumkvæði að því að Rauði kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar stóðu fyrir sameiginlegri fjársöfnun í þágu flóttamanna í fyrrum Júgóslavíu og í þágu hungraðra í Sómalíu. Aðalfjársöfnunin fór fram í september sl. og söfnuðust alls um 23 millj. kr. Þar af var framlag ríkisstjórnarinnar 4 millj. Þá greiðir Ísland umtalsverðar fjárhæðir til Sameinuðu þjóðanna vegna friðargæslusveita í ríkjum fyrrum Júgóslavíu, alls um 10 millj. kr. á árunum 1992 og 1993.
    Að frumkvæði utanrrh. stofnaði ríkisstjórnin 13. okt. sl. starfshóp um aðstoð við flóttamenn í fyrrum Júgóslavíu. Starfshópurinn afhenti ríkisstjórninni áfangaskýrslu um aðstoð við Slóveníu 27. okt. sl. í kjölfar heimsóknar utanrrh. þangað. Þar var m.a. gerð tillaga um fæði fyrir 8.800 einstaklinga í einn dag

og yrði kostnaður íslenskra stjórnvalda þá 3 millj. kr. Ríkisstjórnin féllst á þessa tillögu 27. okt. sl. og mun Rauði kross Íslands hafa milligöngu um aðstoðina.
    Þá afhenti starfshópurinn ríkisstjórninni tillögu um aðstoð við Króatíu og Bosníu-Hersegovínu þann 13. nóv. sl. og gerði tillögu um aðstoð að upphæð 16 millj. kr. Fallist var á tillögur starfshópsins en tillögur hans fela í sér þrennt:
    1. Að Hjálparstofnun kirkjunnar og Rauði kross Íslands hefji í samstarfi við íslensk stjórnvöld fatasöfnun sem fram mun fara nú á næstunni. Tilgangurinn er að afla skjólfatnaðar fyrir veturinn í fyrrum Júgóslavíu. Áætlaður kostnaður sem greiðist af ríkisstjórninni er um 5 millj. kr.
    2. Ísland tekur að sér að endurbyggja skóla, barnaheimili eða önnur mannvirki til hagsbóta fyrir flóttamenn. Áætlað framlag yrði um 6 millj. kr.
    3. Að Ísland sendi matvæli sem þörf er fyrir í löndunum sem væntanlega yrði einkum sjávarfurðir og sláturafurðir. Það framlag yrði 5 millj., þá alls 16 millj.
    Að því er varðar spurninguna um að taka á móti flóttamönnum þótt tímabundið væri, þá er margt að athuga. Útvega þarf fólkinu húsnæði, fatnað og viðurværi. Ekki væri unnt að tryggja flóttafólki atvinnu vegna þess að atvinnu er ekki að fá í flestum tilvikum. Spurning hefur vaknað um að taka á móti munaðarlausum börnum. Vegna hættuástandsins er ekki hvatt til slíkra flutninga af hálfu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Barnahjálpar. Nýlega var t.d. skotið á rútu sem var full af munaðarlausum börnum. Reynt er að tryggja umönnun barnanna á staðnum og mælt með þeirri leið sem stefnu.
    Innan Atlantshafsbandalagsins hafa átt sér stað umræður um hugsanlegar aðgerðir til stuðnings ákvörðunum Sameinuðu þjóðanna varðandi Júgóslavíu, svo sem hjálparstarfsemi og aðgerðir til verndar hjálparstarfseminni sem mikil þörf er á. Aðalframkvæmdastjóri hefur hvatt aðilarríkin til að gera uppskátt um fyrirhuguð framlög til hjálparstarfs. Í umræðum þessum hefur Ísland svarað því til að Ísland gæti að sjálfsögðu ekki lagt til herlið en að íslensk stjórnvöld mundu kanna á hvaða hátt Ísland gæti veitt stuðning. Ísland hefur til þessa ekki tekið þátt í almennri friðargæslustarfsemi en fulltrúar utanrrn., fjmrn. og Hjálparstofnunar kirkjunnar og Rauða kross Íslands vinna að tilnefningu fimm aðila sem Sameinuðu þjóðirnar geta leitað til vegna friðargæsluverkefna í ríkjum fyrrum Júgóslavíu og jafnframt hvernig við getum styrkt það fjárhagslega.
    Önnur spurning hv. þm. var hvaða fyrirætlanir væru uppi um að koma til hjálpar þeim tugþúsundum barna sem búa við stríðsátök, næringarskort og ónóga aðhlynningu á átakasvæðum, svo sem í Bosníu og Hersegovínu. Ég hef þegar greint frá því hvað Ísland hefur gert fyrir stríðshrjáða íbúa fyrrum Júgóslavíu, en færa má rök fyrir að öll sú aðstoð gagnist einnig börnum út af fyrir sig. Fjársöfnun Rauða kross Íslands og Hjálparstofnunar kirkjunnar í þágu flóttamanna í Júgóslavíu og hungraðra í Sómalíu í september rann að verulegu leyti til barna. Verulegum hluta fjárhæðarinnar, um 23 millj., var varið í kaup á sérstökum barnapökkum eða matarpökkum og klæðisplöggum handa börnum. Verið er að kanna möguleika á endurbyggingu mannvirkja, t.d. sérstaklega barnaheimila og eldhúsa sem mundu fæða um 1.000 flóttamenn, þar á meðal konur og börn.
    Að lokum vil ég víkja að hugmyndinni um brottflutning munaðarlausra barna frá fyrrum Júgóslavíu sem ég hef látið kanna sérstaklega. Í ljós kom að Flóttamannastofnun og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna mæla ekki með slíkum flutningum og telja þá óæskilega. Þessar stofnanir telja mikilvægt að hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi en kannanir hafa leitt í ljós að brottflutningur geti reynst börnunum óæskilegir. Viðskilnaður við fjölskyldu er oft meira áfall en vera viðskila við foreldra eða önnur ættmenni. Fyrrnefndar stofnanir hafa reyndar gefið út ítarlega yfirlýsingu um brottflutning barna frá fyrrum Júgóslavíu, dags. 13. ágúst sl., sem ég bendi áhugasömum aðilum á að kynna sér. Benda má t.d. á að börnum er talið betur borgið hjá vinum og ættingjum en hjá ókunnugum fjölskyldum. Aðskilnaður varir yfirleitt lengur en áætlað er og tengsl barnsins rofna við þjóð og menningu. Þá skal bent á að þegar markmið hernaðarátakanna er tilfærsla og búferlaflutningar þjóðarbrota, þá kann að vera þrýst á aðila að flytja börn burt í þessum tilgangi en hins vegar er mikil andstaða gegn því oft og tíðum af hálfu ættmenna og fjölskyldna.
    Loks er rétt að benda á óvæntar stjórnmálaflækjur sem geta spillt fyrir árangri brottflutninga. Þá skal tekið fram að Rauði kross Íslands og Hjálparstofnun kirkjunnar eru sammála því mati er fram kemur að því er þetta varðar.