Aðstoð við íbúa fyrrum ríkja Júgóslavíu

57. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 12:18:10 (2430)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :

    Virðulegi forseti. Ég þakka utanrrh. fyrir skilmerkileg svör við fsp. Þau voru reyndar kannski það ítarleg að það þarf aðeins að leggjast yfir þau til þess að skoða nánar þær tölur sem hann nefndi. Það er vissulega góðra gjalda vert það sem gert hefur verið og íslensk stjórnvöld hafa kannski látið meira fé af hendi rakna til þessa máls en oft hefur verið áður þegar vandi hefur steðjað að fjarlægum ríkjum.
    Ég viðurkenni alveg þau rök sem fram hafa komið um að brottflutningur barna geti verið mjög óæskilegur og geti valdið þeim talsverðum skaða. Það sem hins vegar hlýtur að koma upp í hug fólks þegar svona mál er annars vegar er hvort barnanna bíði bráður bani eða ekki. Þá er betra að flytja þau þó að þau hljóti af því tímabundinn eða jafnvel einhvern skaða en þau hreinlega týni lífinu með því að vera á staðnum. Ef um þetta er að ræða þá blandast manni varla hugur um að brottflutningur geti verið betri.
    Hins vegar langaði mig aðeins til þess að koma inn á flóttamannamálið vegna þess að mér fannst ráðherra svolítið víkja sér undan í því máli. Ég held að það sé alkunna víða um heim að Íslendingar séu taldir ógestrisnir gagnvart flóttamönnum. Við höfum ekki verið dugleg að taka á móti flóttamönnum og það er ekki nýtt. Það er gömul saga og við þurfum ekki annað en rifja upp sögurnar sem til eru um þá gyðinga sem hingað leituðu t.d. á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Það er alveg ljóst að Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt ríki Evrópu til þess að taka á móti flóttamönnum. Það eru að skapast mikil vandamál í flóttamannabúðum sem eru í fyrrum ríkjum Júgóslavíu eins og í Slóveníu og víðar. Þessi vandamál aukast eftir því sem búðirnar standa lengur. Fólk hefur það lítið við að vera og það skapast ýmis félagsleg vandamál á staðnum og þó að við höfum ekki vinnu að bjóða þessu fólki, þá á það auðvitað við um öll Evrópuríki. Það er atvinnuleysi og miklu meira atvinnuleysi í öðrum ríkjum Evrópu en hér hjá okkur. Við eigum nógan mat og við eigum nógan auð á Íslandi og getum vel tekið á móti fólki sem berst í bökkum í sínu heimalandi.