Flugmálaáætlun og fjáröflun í flugmálum

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 13:14:19 (2437)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hér hljóðs við 3. umr. til þess að koma á framfæri fyrirvara sem hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hafði við afgreiðslu málsins úr nefnd en hann kom því miður ekki fram við 2. umr. málsins. Ég segi betra seint en aldrei og kem fyrirvara hennar hér með á framfæri.
    Hv. þm. Jóna Valgerður segir að til þess að skoða þetta mál hafi verið skipuð nefnd frá þremur ráðuneytum til að fara yfir málið. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að þarna hefðu átt sér stað mistök sem bæri að leiðrétta. Þó voru ekki allir nefndarmenn sammála um málsmeðferð og vildi einn þeirra að samhliða færi fram endurskoðun á þeim samningi við Bandaríkin sem þessi undanþága byggði á.
    Það er ekki ágreiningur um að við Íslendingar höfum hag af að gagnkvæm niðurfelling á þessum gjöldum sé í gildi og eigum vitaskuld að standa við áður gerðar skuldbindingar nema þeim sé sagt upp. Samningurinn sem gerður var á sínu tíma tók til tolla og skatta en hefur síðan verið túlkaður á ýmsa vegu. Samningurinn er í gildi fyrir alríkisstjórnina en gildir ekki fyrir fylkisstjórnir Bandaríkjanna. Það hefði því verið full ástæða til að nota þetta tækifæri til að endurskoða samninginn í heild sinni og fá fylkisstjórnirnar inn í það.
    Nú skal ekkert um það sagt hvort það hefði skilað sér í fjárhagslegum ávinningi fyrir okkur Íslendinga. Um það er ekki hægt að dæma fyrir fram. En þessi samningur er orðinn gamall og tími til kominn að fara yfir hann að nýju miðað við breytta tíma.
    Þetta er efnislega sá fyrirvari sem hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir hafði við afgreiðslu málsins úr nefnd. Hún gat þess einnig er hún gerði grein fyrir þessu gagnvart okkur öðrum kvennalistakonum að hún væri efnislega sammála frv. en fyrirvarinn lægi í því að hún vildi gera grein fyrir þessu sem hér hefur fram komið um leið. Hún tók það fram að ástæða væri til að endurskoða þennan samning sem þessi ákvæði byggja á með það að markmiði að fá fylkisstjórnirnar meira inn í það dæmi.
    Ég tel að með þessum upplestri mínum hér hafi þessi fyrirvari komist til skila þó ekki sé fyrr en við 3. umr. og því sé öllum rétt gert til.