Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 13:54:01 (2442)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Sem einn af flm. þessarar tillögu taldi ég rétt að kveðja mér hljóðs og fara nokkrum orðum um þau rök sem flutt hafa verið gegn því að breyta lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Rökin sem fram hafa komið hjá hæstv. menntmrh. og hv. þm. Alþfl. eru þau að það sé ótímabært. Reynslan hafi ekki skorið úr um breytingarnar. Það er m.a. bent á það af hæstv. menntmrh. að þær tölur sem liggi fyrir um Háskóla Íslands segi ekki alla sögu af því að það hafi fjölgað í öðrum skólum á háskólastigi.
    Ég tel óhjákvæmilegt að svara þessum rökum vegna þess að ég tel að þetta séu einu rökin sem

fram hafi verið talin af hv. þm. Alþfl. og af hæstv. menntmrh. Hver er staðan í raun og veru? Ég er með nýjar upplýsingar um þessa hluti sem voru lagðar fyrir menntmn. Alþingis fyrir nokkrum dögum þar sem eitt og annað kemur fram sem gerbreytir myndinni ef þessir hv. þm. eru á annað borð að hugsa um rök í málinu.
    Hver er staðan að því er varðar fjölda lánþega hjá Lánasjóði ísl. námsmanna? Samkvæmt upplýsingum frá stjórn lánasjóðsins, frá Lárusi Jónssyni, framvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna, er það þannig að lánþegar sem voru í fyrra taldir 5.726 á Íslandi eru núna 5.155. Þeim hefur fækkað á aðeins örfáum mánuðum um 600--700 frá því að lögin voru sett og það er ekki aðeins vegna skólagjaldanna. Það er auðvitað vegna lánabreytingarinnar líka. Það hljótum við þingmenn að þekkja af persónulegum kynnum af námsmönnum í stórum stíl. Ég veit að það á a.m.k. við mjög marga þeirra þingmanna sem hér eru í salnum núna. Hér er um að ræða fækkun um 600 eða nákvæmlega 609 frá því sem var á síðasta ári. Það er ekki lítil fækkun. Það eru 600--700 námsmenn, tíu sinnum fjöldi alþingismanna ef menn vilja hafa þá tölu eða eitthvað sem menn geta staðnæmst við og skilið. 600 manns sem fækkar um hjá lánasjóðnum, bara á Íslandi.
    Erlendis er þróunin þannig að þar voru í fyrra 2.535 en eru 2.406. Samtals voru námsmenn hjá LÍN í fyrra 8.261 en eru núna 7.561. Það er með öðrum orðum búið að fækka námsmönnum með þessum aðgerðum og fleirum um um það bil 700 manns. Það eru marktæk tíðindi. Það eru rök fyrir því að breyta lögunum aftur, rök sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti eftir þegar lögin um lánasjóðinn voru til lokaafgreiðslu á síðasta þingi. Þau rök liggja fyrir, staðreyndirnar tala sínu máli.
    Hverjir eru það sem þarna hefur aðallega fækkað um, hvaða fólk er það? Það liggja líka fyrir tölur um það, ekki frá mér, ekki frá stjórnarandstöðunni, ekki frá hv. þm. Finni Ingólfssyni heldur frá stjórn lánasjóðsins, frá framkvæmdastjóra lánasjóðsins sem leggur þær fram óumbeðinn á fundi menntmn. Hver er niðurstaðan þar? Hún er sú að hlutfall foreldra af heildarfjölda námsmanna er lægra nú en það var í fyrra, lægra en það var í hittiðfyrra og lægra en það var árið þar áður líka. Hlutfall foreldra í fjölda námsmanna er komið niður fyrir það sem það var 1989--1990. Það er búið að bakka þessu hlutfalli um 3--4 ár. Hlutfallið er núna það lægsta á sex ára tímabili. Það er 28% í ár, var 34% í fyrra, 38% í hitteðfyrra, 30% þar áður, 29% þar áður, 30% árið 1987--1988. Með öðrum orðum, lægsta hlutfall foreldra í hópi námsmanna sem fá lán hjá lánasjóðnum á sex ára tímabili. Staðreyndirnar hafa talað líka þarna, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hæstv. menntmrh. Þær hafa talað og það liggur fyrir. Ef við skoðum hlutfall einstæðra foreldra var það hlutfall 8% í fyrra en er 7% í ár samkvæmt tölum frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er ljóst að námsmönnum hefur fækkað um um það bil 700 og það eru aðallega foreldrar í hópi námsmanna, einstæðir foreldrar og auðvitað fyrst og fremst konurnar sem verða fyrir barðinu á þessum niðurskurði lánasjóðsins eins og við sögðum í vor, m.a. í þeirri greinargerð með atkvæði mínu sem ég flutti þegar lauk umræðunum um Lánasjóð ísl. námsmanna síðasta vor. Harkalegast bitnar þetta á konunum og við erum að hverfa aftur til þess tíma þegar stúlkurnar, sem eru í sambúð, eru á vinnumarkaðinum þegar vinnu er að hafa en strákarnir eru í námi. Dæmi um það þekkjum við líka persónulega sem eitthvað þekkjum til kjara íslenskra námsmanna og það gerum við öll sem hér erum inni.
    Meginrök hæstv. menntmrh. fyrir lagabreytingunni í fyrra voru þau að bæta þyrfti fjárhag sjóðsins og draga úr skuldum hans. Einnig þau rök eru hrunin, virðulegi forseti. Samkvæmt niðurstöðu fjárlaga og ríkisreikninga á síðasta ári var lánsfjárþörfin á síðasta ári, árið 1992, þegar sá vondi skúrkur sem hér stendur hafði með þessi mál að gera eða hafði haft með þessi mál að gera í aðdragandanum, 2,8 milljarðar, þar áður 3,2 milljarðar. Hver er hún samkvæmt spá lánasjóðsins sjálfs á næsta ári, 1993? Hún er ekki lægri en í ár. Hún er heldur ekki lægri en í fyrra þegar hún var þó í hámarki, gagnrýnd harðlega af núv. ríkisstjórn. Hver er hún? Lánsfjárþörf Lánasjóðs ísl. námsmanna er hærri en nokkru sinni fyrr eða 3,5 milljarðar kr. Því er lofað að það verði skuldbreytt hjá lánasjóðnum. Það hefur ekkert verið gert í því. Ef ekki verður skuldbreytt þarf sjóðurinn að taka að láni á næsta ár 3,5 milljarða, á þar næsta ári 3,8 milljarða, á árinu 1995 4,2 milljarða og á árinu 1996 4,7 milljarða kr.
    Virðulegi forseti, öll rökin sem þeir fluttu eru hrunin. Það liggur fyrir fækkun námsmanna, það liggur fyrir að það bitnar aðallega á einstæðum foreldrum, fyrst og fremst á konum og það liggur fyrir að fjárhagur sjóðsins verður fyrirsjáanlega verri á næsta og komandi árum en hann hefur nokkurn tíma verið. Er hægt að finna betri rök fyrir nauðsyn þess að endurskoða lögin eins og hér er flutt tillaga um, virðulegi forseti?