Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:05:03 (2445)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Áður en ég kem að því efni sem ég sá ástæðu til að tala um í þessari umræðu vil ég ítreka þá spurningu sem hv. 9. þm. Reykv. bar fram til hv. 17. þm. sama kjördæmis. Ég vonast til að síðar í umræðunni munum við fá tækifæri til að kynnast hug þingmannsins til þessa máls, ekki einungis í orði heldur einnig í æði.
    Ég vil þá taka þrennt fram varðandi þetta frv. sem einn fulltrúi Kvennalistans, sú sem situr í menntmn., á aðild að. Ég vil í fyrsta lagi taka það skýrt fram að ég tel að endurskoðun sé tímabær eigi síðar en nú þegar, bæði vegna þeirra ákvæða í lögunum sem við höfum harðast gagnrýnt og þar á ég nú ekki síst við eftirágreiðslur lánanna sem hafa reynst og munu reynast námsmönnum mjög þungur baggi, ekki síður vegna þeirrar óvissu sem við búum við varðandi vaxtaákvarðanir þar sem mér sýnist svona hálft í hvoru að við sitjum á tímasprengju. Hvenær sem er geta vextirnir sprungið upp úr þessu eina prósenti sem var ákveðið í vor eftir harða hríð og í hærri upphæðir og illviðráðanlegri.
    Í þriðja lagi er ýmislegt fleira sem flokkast undir vankanta þessara laga sem ástæða er til að endurskoða eigi síðar en nú þegar. En það er ekki síður ástæða til þess að endurskoða þessi lög vegna þeirrar framkvæmdar sem orðið hefur á þeim og þar tek ég svo sannarlega undir með hv. 17. þm. Reykv. Einmitt vegna þess að lögin hafa gefið möguleika og svigrúm fyrir því að þau séu túlkuð á þennan veg og þær úthlutunarreglur settar sem gera jafnvel illt verra eins og við höfum hér rækilega rætt á þinginu, þá er ástæða til að endurskoða lögin og hafa það í huga að hafa ekki þessar opnu smugur heldur þvert á móti að ganga þannig frá að slík slys eigi sér ekki stað eins og orðið hafa við setningu sumra þeirra úthlutunarreglna sem nú gilda.
    Ég vil taka sérstaklega undir það sem þegar hefur komið rækilega fram í þessari umræðu og öðrum umræðum um svipað efni hér fyrr á þessum vetri að konum í háskólanámi hefur fækkað. Þetta er bein afleiðing af þeim breytingum sem orðið hafa. Það er ekki hægt að túlka það á nokkurn annan veg og ég hef raunar ekki heyrt neinn reyna slíkt. Ég vil taka það fram t.d. að í Háskóla Íslands hafa konur verið upp undir 60% eða nánar tiltekið á síðasta ári 59,1% innritaðra nemenda. Það kemur bæði til vegna þess að þær sækjast meira eftir menntun og einnig vegna þess að við erum enn að klára uppsafnaðan vanda fyrri ára þegar konur biðu eftir því að komast í nám einmitt vegna þeirra aðstæðna að þær voru fyrirvinnur á meðan eiginmennirnir voru að læra. Þær hafa sem sagt verið að sækja í nám, bæði yngri og eldri konur, á undanförnum árum vegna þess að það var mögulegt. En núna þegar er umtalsverð fækkun og við innritun í Háskóla Íslands voru aðeins 54,9% í stað rúmlega 59% innritaðra stúdenta konur. Ég hef heyrt það en get því miður ekki komið með neinar beinar tölur um það að það sé jafnvel enn verra sem hefur verið að gerast í ýmsum öðrum skólum. En ég er fús til þess ef þessi umræða heldur áfram síðar að koma með nákvæmari tölu, ég veit að t.d. í Myndlista- og handíðaskóla Íslands hefur orðið sjáanleg fækkun á konum en þar hafa konur verið í töluverðum meiri hluta en meiri hluti þeirra er sem sagt ekki hlutfallslega sá sem hann var áður.
    Ég vil geta þess að við kvennalistakonur höfum tekið á því sem varðar vaxtakjörin sérstaklega með sérstöku frv. þar sem einfaldlega er gengið út frá því að fólk, sem er að fara í nám, viti við hvaða vaxtakjör það mun búa og það tel ég sjálfsagða og eðlilega leiðréttingu sem yrði að vera með inni í myndinni þegar svona allsherjarleiðrétting ætti sér stað.
    Síðast en ekki síst vil ég vekja athygli á því að menntun er ekki útgjöld heldur fjárfesting heils samfélags. Og við höfum nú nýverið fengið enn eina ábendinguna um það að við höfum ekki sinnt því sem skyldi að leggja rækt við menntun. Þrátt fyrir það að margir hafi komið nálægt námi þá er það einfaldlega ekki það sem við hlúum að sem skyldi. Þarna er ég að vitna til nýútkominnar OECD-skýrslu um rannsóknir og þróun sem mér þykir mjög merkileg lesning og er ég síður en svo búin að fulllesa til þess gagns sem ég hugsa að hún verði, en engu að síður er ekki hægt að misskilja þessa skýrslu. Það er hreinlega hvatt til þess að Íslendingar byggi framtíðina á því að hlúa vel að þeirri menntun sem boðið er upp á. Ég kalla það ekki að hlúa vel að menntun ef menn eru ekki reiðubúnir til þess að endurskoða nú þegar lögin um

Lánasjóð ísl. námsmanna þar sem í ljós hefur komið að á þeim eru alvarlegir gallar og taka öll þau mál inn í þessa endurskoðun sem hér hefur verið drepið á og þau önnur sem kunna að koma upp og vera athyglisverð. Við verðum að setja okkur það verðuga markmið að byggja á þeirri auðlind sem menntun er. Þá er ég ekki bara að tala um menntun sem bóknám heldur alhliða menntun er í öllum samfélögum.