Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:21:18 (2447)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrst nokkur orð vegna þess sem hv. þm. Finnur Ingólfsson sagði hér í ræðu sinni áðan og ég hafði ekki tíma til að svara varðandi skólagjöldin og lán fyrir vöxtum og ferðalán og kannski eitthvað fleira sem hann nefndi og taldi að lánasjóðsstjórnin hefði ekki farið eftir því sem ég hefði sagt hér í umræðu áður um þessi mál. Ég ætla að grípa niður í ræðu sem ég hélt 19. okt. þegar rætt var frv. um breytingu á lánasjóðslögunum. Ég sagði þá m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Meðal þess sem stjórnin [þ.e. stjórn LÍN] hefur samþykkt er að lán vegna skólagjalda þeirra sem stunda nám erlendis`` --- vel að merkja sem stunda nám erlendis --- ,,verða greidd fyrir fram á svipuðum tíma og tíðkast hefur. Þetta veldur því að skólagjöld að upphæð um 200 millj. kr. greiðast nú strax í haust.``
    Þá sagði ég: ,,Þeir námsmenn sem höfðu fengið staðfesta skólavist í grunnháskólanámi eða sérnámi erlendis fyrir 3. júní sl., þegar úthlutunarreglur fyrir skólaárið 1992--1993 voru gefnar út, fá lán vegna skólagjalda í samræmi við reglur sem giltu á síðasta ári. Ferðalán til þeirra sem stunda nám erlendis verða greidd strax og þeir hafa lagt fram gögn um ferðir sínar og fjölskyldu. Bókalán verða greidd í einu lagi við fyrstu útborgun framfærsluláns til námsmanna.``
    Um vextina sagði ég: ,,Sérstöku álagi verður bætt ofan á námslánin vegna þess að þau greiðast nú að meðaltali tveimur til fjórum mánuðum síðar en áður. Þetta álag er miðað við 9% raunvexti á ári og bætist við lán allra námsmanna án tillits til þess hvort þeir taka lán eða ekki. Talið er að þetta hækki námslán samtals um 50 millj. kr á næsta skólaári.`` Ég sé því ekki að stjórn lánasjóðsins hafi gert mín orð að einhverjum ómerkum orðum.
    Svo nokkur orð um þau lán sem sýnilegt er að lánasjóðurinn þarf að taka á næstu árum. Menn gera hér mikið mál úr því að þetta verði hærri upphæðir en áður hafi sést. Þetta er ekkert sem er að koma í ljós núna. Þetta geta menn lesið á töflum sem fylgdu frv. um lánasjóðinn og það ætti ekki að þurfa að segja mönnum það að hertar endurgreiðslukröfur skila sér ekki strax á fyrsta ári, aldeilis ekki. Það tekur mörg ár fyrir sjóðinn að jafna sig á því sem áður var gert þannig að þetta er ekkert sem á að koma mönnum á óvart. Það liggur alveg fyrir að með ríkisframlaginu núna og aðstoðinni sem kemur frá ríkinu, sem er 54%, þá stendur lánasjóðurinn undir skuldbindingum sínum en það var ekki svo í tíð síðustu ríkisstjórnar. Og það þýðir ekkert að vera að hamra á því enn og aftur að ef sjóðurinn hefði verið gerður upp á árinu 1991 þá hefði hann skilað 9 milljörðum kr. Þetta hefur ekkert verið reynt. En það var bara ekki meining okkar að gera sjóðinn upp. Það var ætlun okkar með lagasetningunni að koma í veg fyrir gjaldþrot sjóðsins og hann gæti starfað áfram. Það var það sem við gerðum. ( GHelg: ... milljörðum.) Sagði ég það ekki? ( GHelg: Nei.) Ja, ég sagði milljörðum. Hafi ég ekki gert það, þá var það ætlunin, það voru 9 milljarðar sem hefur verið talað um.
    Hv. þm. Svavar Gestsson talaði hér um að foreldrum í námi fækki núna alveg sérstaklega. Það er út af fyrir sig rétt og þarf ekki að koma svo mjög á óvart þótt lántakendum yfirleitt fækki. Menn verða að hafa í huga upp á hvað var boðið einmitt í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá var boðið upp á miklu betri kjör, ef ég má orða það svo, fyrir námsmenn en almenningur hafði á vinnumarkaði. Námslánin voru hækkuð langt umfram launakjör annarra. Þegar þau voru skert, þá voru lánin hækkuð. Það var ekkert óeðlilegt við það að fleiri leituðu í nám og í lánasjóðinn þegar boðið var upp á þessi kjör. Hlutfall foreldra er nú svipað því sem var áður en námslánin voru hækkuð svo mjög sem gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar.
    Ein ástæðan fyrir því að lánasjóðurinn þarf að taka svona há lán núna er einmitt sú að í tíð fyrri ríkisstjórnar voru tekin skammtímalán og það er unnið að skuldbreytingum þeirra einmitt núna. Það er ástæða til þess að ætla að sú skuldbreyting fáist og við það er miðað.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir talaði um jafnrétti til náms og hinar hertu endurgreiðslureglur. Það er sjónarmið út af fyrir sig að það sé jafnrétti til náms að fá að vera eins lengi og manni sýnist við nám. ( GHelg: Ég sagði það ekki.) Hv. þm. sagði að jafnrétti til náms væri leyfi þá til þess að ganga það illa. Má ég orða það svoleiðis? ( GHelg: Já.) Ég tek þá fyrri orð mín aftur. Ég veit að það er merkingarmunur á þessu. Það væri vissulega ósköp gott ef við hefðum efni á því að veita mönnum námslán, mér liggur við að segja ótiltekinn tíma bara vegna þess að þeir hefðu ekki sömu námshæfileika og kannski aðrir sem ná náminu á þeim tíma sem viðkomandi skóli gerir ráð fyrir að þurfi. Þetta væri áreiðanlega mjög gott ef við gætum þetta, en því miður er ekki staðan sú í dag og það hefur Alþingi í raun og veru sagt í gegnum árin. Það hefur ætíð sagt það.
    Í tíð síðustu ríkisstjórnar voru tekin gífurlega mikil lán. Skuldir sjóðsins, ég hef það hér, jukust á

árunum 1988--1991 mjög verulega. Það voru tekin lán að upphæð tæplega 8,5 milljarðar kr. á árabilinu 1988--1991. ( SvG: Á þremur árum.) Já, já, en afborganir af lánum á sama tíma voru einungis 1.833 millj. ( GHelg: Þrjár Perlur). Já, við höfum dálítið annað mat á peningum. Ég veit það. Það hefur oft komið fram og líka í þessu frammíkalli hv. þm. Skuldsetning sjóðsins jókst um 6,5 milljarða á þessu árabili og auðvitað má líkja þessu við hreina tímasprengju.
    Ég get svo upplýst hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að ég hef þegar farið í heimsókn á skrifstofu lánasjóðsins og ég veit að þar er mjög mikið starf unnið og þar er líka ýmislegt skipulagsstarf óunnið, m.a. í kjölfar breytinga á lánasjóðslögunum.
    Um skólagjöldin í Bandaríkjunum gæti ég svo sem margt sagt. Ég læt það nægja af því að tími minn er liðinn að það er ekki lengur lánað fyrir skólagjöldum sem eru greidd af viðkomandi háskólum. Það er náttúrlega grundvallarbreyting og lækkar vissulega framfærslueyri margra námsmanna sem höfðu notið þeirra forréttinda vil ég segja að frá styrki frá sínum háskólum og jafnframt lán fyrir þessum styrkjum hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Því var breytt.