Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:32:55 (2450)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er búinn að svara þessu öllu saman en kannski ekki nægilega skýrt varðandi skólagjaldanám til þeirra sem stunda nám við háskólastigið hér heima. Ég var að svara þessu varðandi skólagjöldin erlendis. Skólagjöld voru fyrst tekin upp nú í haust við Háskóla Íslands og á háskólastiginu. Það var ákvörðun stjórnarinnar að lána ekki til þessara gjalda nema það sem væri umfram 15 þús. kr. Það var svo.
    En ég hef svarað þessu alveg skýrt varðandi ferðalánin og með þessum orðum sem ég skal tiltaka enn einu sinni. Ferðalán til þeirra sem stunda nám erlendis verða greidd strax og þeir hafa lagt fram gögn um ferðir sínar og fjölskyldu. Ég kann ekki að segja frá því hver fargjöldin eru eins og hv. þm. kann til hinna ýmsu landa. En eftir því sem ég best veit eru til lægri fargjöld en hann nefndi. Ég veit ekki satt að segja hvort lánasjóðsstjórnin hefur ákveðið að binda þessi ferðalán við einhverja tiltekna gjaldaflokka hjá flugfélögunum. Ég hef einhvern veginn grun um að ekki sé ætlunin t.d. að lána fyrir fargjöldum á Sagafarrými. Ég býst ekki við því án þess að ég geti fullyrt það. (Gripið fram í.) Já, það er ágætt. Þingmaðurinn er þegar búinn að biðja um orðið. Ég heyrði það.
    Þetta hef ég um þetta að segja og um 12% af skólagjöldum við HÍ er það að segja að lánasjóðsstjórnin hefur tekið ákvörðun að lána eingöngu skólagjöld umfram það sem er 15 þús.