Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:36:46 (2452)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Út af þessum síðustu orðaskiptum hæstv. menntmrh. og hv. 11. þm. Reykv., þá er það auðvitað alveg ljóst að hæstv. ráðherra ræður ekkert við stjórn sjóðsins. Iðnnemasambandsmálið er náttúrlega talandi dæmi um það þar sem hæstv. ráðherra hefur sagt að Iðnnemasambandið eigi að fá áheyrnarfulltrúa í stjórn sjóðsins en stjórn sjóðsins segir nei. Þannig hafa hlutirnir staðið núna í hálft ár að því er það mál varðar. Þetta er auðvitað eins með úthlutunarreglurnar miðað við þau dæmi og þær tilvitnanir sem hv. 11. þm. Reykv. hér var með áðan.
    Ég kvaddi mér hins vegar hljóðs hér, virðulegi forseti, fyrst og fremst vegna þess að samkvæmt áætlunum lánasjóðsins sjálft er gert ráð fyrir því að skuldir hans fari mjög vaxandi á komandi árum. Hæstv. ráðherra sagði áðan í hneykslunartón að lántökur lánasjóðsins hefðu verið 8 milljarðar á þremur árum. Samkvæmt áætlunum hans eigin stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna er gert ráð fyrir því að lántökurnar á næsta ári verið 3,5 milljarðar, á þar næsta ári 3,8, milljarðar, á árinu 1995 4,3, milljarðar, á árinu 1996 4,7 milljarðar. Þ.e. á árunum 1995 og 1996 samkvæmt hans eigin upplýsingum 9 milljarðar kr. á tveimur árum. Þessi stjórn er að kollsigla lánasjóðinn. Sjóðurinn getur ekki ráðið við þessar skuldir. Af því að hæstv. ráðherra sagði að í fjárlagavinnunni sé gert ráð fyrir því að þessum lánum verði skuldbreytt, þessum skuldum verði breytt og þær lengdar þá er það rangt. Það er ekki punktur, ekki komma, ekki stafkrókur í fjárlagafrv. um að breyta lánum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Þegar embættismenn sjóðsins komu á fund menntmn. fyrir nokkrum dögum, þá upplýstu þeir að það lægi ekkert fyrir í þessum efnum. Mér er kunnugt um að í fjárln. liggur engin niðurstaða fyrir í þessum efnum. Það er ljóst að sjóðurinn verður skuldsettari á næstu árum en hann hefur nokkru sinni áður verið. Það er því til lítils farin sú ferð sem lagt var í sl. vor reisa við fjárhag Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það verð ég að segja, virðulegi forseti.