Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:45:54 (2457)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef beðið um þessa umræðu til að ræða þau ótrúlegu tíðindi að hæstv. ríkisstjórn hefur ákveðið að skrá okkur Íslendinga í hernaðarbandalag. Og meira að segja án þess að það mál fáist rætt á hinu háa Alþingi. Kunnugt er að hæstv. utanrrh. hyggst undirrita aukaaðildarsamning við Vestur-Evrópusambandið. Þetta mál, eins og ég sagði, er ekki einu sinni rætt hér og hefur varla verið nefnt í hv. utanrmn.
    Hvað er þetta Vestur-Evrópusamband? Ég er ekki viss um að allir hv. þm. þekki Vestur-Evrópusambandið. Það er út af fyrir sig alls ekki nýtt. Það var sett á stofn fyrir nokkrum árum, mest að áeggjan Frakka sem ekki hafa verið virkir þátttakendur í hernaðararmi Atlantshafsbandalagsins. Það fór afar lítið fyrir þessu sambandi í mörg ár og var eiginlega ekki hafið til vegs og virðingar fyrr en í Maastricht á sl. vetri þegar Evrópubandalagið varð sammála um að styrkja sína samstöðu og stefna að því m.a. að móta sameiginlega utanríkisstefnu. Þá var ákveðið að Vestur-Evrópusambandið skyldi vera hernaðararmur hinnar sameiginlegu utanríkisstefnu Evrópubandalagsins. Þá var jafnframt ákveðið að bjóða þremur löndum sem ekki eru aðilar að Evrópubandalaginu aukaaðild, Tyrklandi, Noregi og Íslandi. Það var ákveðið að bjóða þeim löndum sem eru á útköntum Evrópu, þ.e. í norðri, austri og vestri að gerast aukaaðilar, augljóslega ekki í einhverju góðgerðarskyni, hygg ég, heldur til að hafa aðgang að þessum útvörðum Evrópu.
    Ég vil harðlega mótmæla þessu og tel satt að segja að margar minni ákvarðanir hafi verið ítarlega ræddar á hinu háa Alþingi. Ég vil líka mótmæla því að sá sáttmáli sem þarna á að undirrita hefur ekki fengist t.d. til skoðunar í hv. utanrmn. Ég held að það hljóti að vera einsdæmi.
    Ég er þeirrar skoðunar að við Íslendignar eigum ekkert erindi í Vestur-Evrópusambandið. Við eigum ekkert erindi í þessa sameiginlegu lögreglu Evrópubandalagsins nema það sé ætlun hæstv. ríkisstjórnar að við Íslendingar gerumst aðilar að Evrópubandalaginu. Það er rétt að Norðmenn virðast ætla að sækja þar um aðild og sömuleiðis hafa Tyrkir gert það en það höfum við ekki gert.
    Ég álít að í varnarmálum okkar beri okkur að snúa okkur, eins og við höfum gert, að Atlantshafsbandalaginu og Bandaríkjunum. Það er vissulega full ástæða til að taka upp viðræður við þessa aðila um hvernig okkar samstarfi við þá verður hagað í þeim breytta heimi sem við erum í nú. Mér hefur reyndar skilist að hæstv. ríkisstjórn hafi gert út menn í því skyni. Ég vona ekki bara í því skyni að biðja Bandaríkjamenn að draga sem minnst úr sínum umsvifum hér.
    Ég vil harðlega mótmæla þessu og hlýt að spyrja hæstv. utanrrh. um þau gögn sem þarna á að undirrita. Getur hann upplýst hið háa Alþingi um þau og hvað í þeim er skráð? Getur hann upplýst Alþingi um það t.d. hvaða kostnaður fylgir því að vera aukaaðili? Reyndar vildi ég fá frá hæstv. utanrrh. miklu nánari upplýsingar um þetta mál heldur en okkar stutti tími í þessari umræðu gefur kost á. Ég hefði talið nauðsynlegt að utanrmn. kæmi saman og ræddi þetta mál mjög ítarlega áður en þessi samningur er undirritaður og hv. utanrmn. gæfi hinu háa Alþingi skýrslu um málið og það þá mætti ræðast hér.