Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 14:49:41 (2458)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hv. 7. þm. Reykn. reifar hér á sér langan aðdraganda. Upphaf þessa máls er það að þann 26. des. á fyrra ári skrifaði utanríkisráðherra Þýskalands, Hans-Dietrich Genscher, fyrir hönd formennskulands Vestur-Evrópusambandsins bréf til íslensku ríkisstjórnarinnar þar sem boðið var til umræðna um hugsanlega aukaaðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu og þess getið að þetta væri byggt á samkomulagi sem gert hafði verið í Maastricht af hálfu leiðtoga þess þar sem samþykktin náði einnig til annarra aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sem ekki eiga þar aðild, sem eru Noregur og Tyrkland.
    Málið var rætt snemma árs í ríkisstjórn. Niðurstaðan varð sú að 18. mars sl. svaraði ég bréfi Genschers og fagnaði því að hafa fengið þetta boð og því var tekið jákvætt fyrir hönd íslensku ríkisstjórnarinnar að efna til slíkra viðræðna. Þann 3. júlí var síðan lögð fram í ríkisstjórn greinargerð þar sem skilmálar, réttindi og skyldur aukaaðildarríkja voru loks skilgreind. En það hafði gerst með svokallaðri Petersberg-yfirlýsingu frá því fyrr um sumarið.
    Þessi mál voru kynnt í utanrmn. á fundum hennar 7.--9. júlí og þar var Petersberg-yfirlýsingin lögð fram og rædd. Þann 7. sept. var lögð fram skrifleg greinargerð og mat á stöðu málsins í utanrmn. og nú þann 16. nóv. var aftur afhent greinargerð um niðurstöður þeirra viðræðna sem staðið hafa yfir af hálfu embættismanna utanrrn. allt frá 15. júlí og lauk þann 10. nóv. Þess er síðan að geta að í skýrslu minni til Alþingis um utanríkismál er ítarlega fjallað um Vestur-Evrópusambandið og þar á meðal greint frá þessum bréfaskriftum og jákvæðri afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar til þess að efna til þessara viðræðna þannig að málið á sér langan aðdraganda. Það hefur að sjálfsögðu verið rætt í þingflokkum stjórnarflokkanna og eftir því sem ég best veit hlotið þar jákvæðar undirtektir.
    Á seinasta fundi utanrmn., þann 16. nóv. sl., þar sem greinargerð var lögð fram um málið var síðan frá því skýrt að þessar viðræður hefðu leitt til jákvæðrar niðurstöðu, þ.e. að tillit hefði verið tekið til athugasemda Íslendinga sem voru fyrst og fremst þær að leggja á það áherslu í aðildarsáttmálaskjalinu að þar væri lögð megináhersla á að varðveita Atlantshafsamstarfið innan Atlantshafsbandalagsins, þ.e. að Vestur-Evrópusambandið væri hinn evrópski þáttur Atlantshafssamstarfsins. Jafnframt var orðið við kröfum okkar um að ekkert í þessu aukaaðildarskjali breytti í neinu öðrum skuldbindingum okkar, réttindum og skyldum innan Atlantshafsbandalagsins. Það kemur fram í sérstakri yfirlýsingu formennskulandsins, sem flutt verður á fundinum í Róm þann 20. ágúst, að þar sé átt við Washington-sáttmálann.
    Öll efnisatriði þessa máls er að finna í hinni svokölluðu Petersberg-yfirlýsingu sem lögð var fram í utanrmn. og hefur þar verið rædd.
    Um skilmálana er það að segja að þar hafa réttindi og skyldur aukaaðildar verið skilgreind og eru í veigamiklum atriðum önnur en ef um er að ræða fulla aðild.
    1. Aukaaðilar hafa þátttökurétt og málfrelsi á fundum Vestur-Evrópusambandsins en geta ekki komið í veg fyrir samróma ákvörðun aðildarríkja.
    2. Aukaaðilar geta tengst svonefndri varnaráætlun með föstum tengilið þ.e. áheyrnarfulltrúa.
    3. Formennskulandið eða helmingur aðildarríkja getur þó takmarkað þátttöku á fundum við ríki sem eiga fulla aðild.
    4. Aukaaðilar geta tengst að eigin ákvörðun ákvörðunum aðildarríkja og geta tekið þátt í framkvæmd þeirra nema því aðeins að formennskulandið eða helmingur aðildarríkja ákveði annað.
    5. Aukaaðilar geta tekið þátt í varnaraðgerðum Vestur-Evrópusambandsins á sama grundvelli og ríki með aðild ef þau leggja til liðsafla. Af hálfu Íslands hefur verið bókað að slíkt komi ekki til greina.
    6. Aukaaðilar tengjast fjarskiptakerfi aðildarríkjanna vegna funda og annarrar hliðstæðrar starfsemi á vegum samtakanna.
    7. Aukaaðilar munu greiða sinn hlut til sjóða Vestur-Evrópusambandsins. Hlutur Íslands er um saminn 0,1%. Miðað við fjárhagsáætlun sambandsins á sl. ári mundi það samsvara u.þ.b. 280 millj. kr.
    Virðulegi forseti. Því miður gefst mér ekki tími til að segja meira á þessum takmarkaða tíma en það er ástæða til að vekja athygli á því að hér er um það að ræða að þrjú aðildarríki Atlantshafsbandalagsins gerast aukaaðilar samkvæmt þessum skilmálum. Það er til þess að laga sig að þeim breytingum sem nú eiga sér stað innan Atlantshafsbandalagsins. Með öðrum orðum að tryggja það að sjónarmið Íslands geti heyrst í þessum samtökum og að við getum fylgst með þeim breytingum á umþóttunarskeiði sem eru að eiga sér stað í öryggismálum Vestur-Evrópu.