Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:16:06 (2469)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Það er sennilega rétt sem fram kom hjá hv. málshefjanda og seinasta ræðumanni að þær tölur, sem hér hafa verið nefndar um kostnaðarhlutdeild, benda ekki til þess að þetta sé voldugt eða mikið varnarbandalag. Ég vil þess vegna taka mönnum vara við því að þessar tölur eru fengnar, eins og ég sagði, með einu símtali og eru byggðar á þýðingu á því sem upp var gefið, ,,operating costs``. Það er vitað að Vestur-Evrópusambandið er auðvitað að taka miklum breytingum. Það er m.a. að flytja aðalstöðvar sínar frá London til Brussel og þróun þess í framhaldi af Maastricht-samningnum verður væntanlega á þann veg að heildarkostnaðurinn aukist. En tölurnar gefa engu að síður til kynna að ekki sé um miklar skuldbindingar að ræða.
    Í annan stað. Hv. þm. spurði: Er ekki hægt að fá birt þau skjöl sem hér um ræðir? Það kom fram í fyrri ræðu minni að grundvallarskjalið, sem skilgreinir réttindi og skyldur aukameðlima í Vestur-Evrópusambandinu, var lagt fram á þessu sumri í utanrmn. Það er svokölluð Petersberg-yfirlýsing. Ég taldi upp í svari mínu áðan alla meginþætti þess, sjö að tölu, og það er hafið yfir allan vafa að við erum ekki að taka á okkur neinar nýjar skuldbindingar umfram þær sem við höfum þegar gert með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal enga skuldbindingu til þátttöku í varnaraðgerðum, framlag á vopnuðum mönnum eða neitt þess háttar. Í því er með öðrum orðum engin breyting. Hvers vegna er þá verið að óska eftir aukaaðild? Það er vegna þess að Atlantshafsbandalagð er nú á breytingaskeiði, ef svo má komast að orði, það stefnir í þá átt í vaxandi mæli að Vestur-Evrópusambandið, sem hin evrópska stoð innan NATO, ráði ráðum sínum saman þannig að Atlantshafsbandalagið er í vaxandi mæli að verða einhvers konar tvíhliða bandalag. Þau lönd innan Atlantshafsbandalagsins, sem ekki eiga þar neina aukaðaild, standa þess vegna frammi fyrir þeirri áhættu að standa frammi fyrir orðnum hlut þegar kemur þar að ákvörðunum. (Forseti hringir.) Hér er þess vegna eingöngu um það að ræða að við óskum eftir því að fá aðstöðu til þess að koma sjónarmiðum okkar á framfæri á þessum vettvangi og við erum að gera það með því að leggja áherslu á að koma þar á framfæri sjónarmiðum sem tengjast nauðsyn þess að viðhalda Atlantshafssamstarfinu.
    Að því er varðar afstöðu bandarískra stjórnvalda, þá er það merkilegt að bandarísk stjórnvöld eru eindregið meðmælt því að bandalagsþjóðir þeirra eins og Noregur og Ísland stígi þetta skref. ( Gripið fram í: En Alþýðuflokkurinn?) Sömuleiðis.