Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:31:13 (2477)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þegar því er lýst yfir að vegna þingskapa sé ekki hægt að halda umræðunni áfram byggir það að verulegu leyti á þekkingarleysi á þingsköpunum. Ég vil biðja þá sem eru með þingsköpin að fletta upp á 90. gr. þingskapanna. Þau eru alveg ótvíræð:
    ,,Eftir uppástungu forseta eða formanns þingflokks má bregða út af þingsköpum þessum ef tveir þriðju hlutar þeirra þingmanna, er um það greiða atkvæði, samþykkja.``
    Forseta er í lófa lagið ef hann vill liðka fyrir umræðunni að bera það upp við þingheim hvort nú verða teknar 20 mínútur til þess að hleypa þeim að sem höfðu beðið um orðið en ekki komist að. Ég verð að segja eins og er að mér finnst skrýtið að hafa svona heimildir inni, eins og hér eru í 90. gr., ef það á ekki að nota þær þegar augljóst er að sú ákvörðun um ræðutíma sem tekin hefur verið áður af forsetanum leiðir til þess að margir, sem leitað hafa eftir, hafa ekki fengið að tjá sig um málið, ekki einu sinni í hálfa mínútu. Það er þess vegna misbeiting á valdi, að mínu viti, ef forseti lítur svo á undir þessum kringumstæðum að það séu þingsköpin sem koma í veg fyrir að þetta sé gert. Ef þingheimur er sammála forsetanum í því að ekki eigi að lengja umræðuna er það auðvitað sjálfgefið. En ég tel að undir þessum kringumstæðum vaxi forsetar þingsins að virðingu ef þeir hliðra til og leggja til að umræðum verði fram haldið svo þeir sem höfðu beðið um orðið fái sama ræðurétt og þeir hefðu fengið ef þeir hefðu komist að meðan hálftímaumræðan stóð.