Aðild Íslands að Vestur-Evrópusambandinu

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:35:44 (2480)

     Guðmundur H. Garðarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er virðingarvert að hv. utanrmn. skuli ætla að fjalla um þetta mál daginn áður en hæstv. utanrrh. ætlar að undirrita það samkomulag sem hann skýrði frá hér í upphafi þessarar umræðu. Það eitt nægir ekki, vil ég álíta, hv. Alþingi þar sem ég álít að afgreiðsla þessa máls hljóti að verða að fara fram á hinu háa Alþingi áður. Það kom fram í ræðu formanns þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Geirs Haarde, að það gæti verið að þessi umræða færi fram síðar ef efni stæðu til. Það hlýtur þá að vera eftir undirskriftadag sem er á morgun en það er ekki fullnægjandi.
    Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, óska eftir því að samkvæmt 90. gr. þingskapalaga beri forseti það undir þingheim hvort ekki sé hægt að framlengja þessa umræðu um 20 mínútur eins og þingsköp gera ráð fyrir. Það fari þar af leiðandi fram atkvæðagreiðsla um það hvort þingheimur leyfir slíkt en þingsköp gera ráð fyrir því að slíkt sé hægt.