Lánasjóður íslenskra námsmanna

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 15:52:29 (2486)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þeir dagar eru löngu liðnir að ég plati hv. þm. Svavar Gestsson. Það var á allt öðrum dögum í allt öðrum flokki sem það gerðist. Ég segi aðeins mitt álit á þessu. Mér finnast sum þeirra raka sem hér eru fram borin ekki standa á góðum grunni. Mér finnst ýmislegt í því sem menntmrh. segir vera nokkuð gott. En hvers vegna ætti ég eða einhver annar í Alþfl. að koma hér og plata? Það hlýtur alltaf að koma að skuldadögum. Skuldadagarnir eru þegar við stöndum í þessum sal og tökum endanlega afstöðu til þeirra tillagna sem fram eru bornar. Það yrði þá einungis bið eftir því að upp komist svik og þau komast alltaf upp um síðir fari menn undir röngu skinni.