Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:28:01 (2494)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem að mörgu leyti er merkilegt. En ég hegg eftir því að flm. telur rétt að verja hluta þeirra 250 millj. kr. sem á að nota í sérstakt þróunar- og rannsóknarverkefni á næstu árum m.a. til þess að standa undir þessari tillögu. Það er í sjálfu sér ekki vitlaus hugmynd en ég vek athygli á því að obbinn af þessum peningum á að koma af sölu Búnaðarbankans. Ber þá að líta svo á að Framsfl. sé loksins orðinn hlynntur því að Búnaðarbankinn verði seldur?
    Jafnframt ítreka ég það að mér finnst tillagan að mörgu leyti ágæt. En fyrir okkur sem höfum gegnt því hlutverki í þingsölum að reyna að koma vitinu fyrir Framsfl., stundum með því að styðja tillögur þeirra, jafnvel að vera meðflutningsmenn, þá er lágmark að við skiljum nákvæmlega hvað um að vera.
    Tillagan segir að ríkisstjórninni skuli falið að efla starf Ferðamálaráðs m.a. á sviði umhverfisverndar. Ég las tillöguna í gegn og sé ekkert um umhverfisvernd. Ég tók að vísu eftir því að hv. flm., 1. þm. Austurl., kvaðst að svo stöddu ekki ætla að segja mikið um umhverfisvernd. En til þess að ég geti haldið uppteknum hætti og stutt framsóknarmenn til góðra verka er lágmark að ég skilji hvað felst í tillögunni ekki síst vegna þess að ég tilheyri þeim flokki sem fer með umhvrn. Þetta kemur inn á starfssvið míns ástkæra hæstv. umhvrh. þannig að ég tel óhjákvæmilegt að fá örlitla skýringu á því hvernig hv. þm. ætlar að efla starf Ferðamálaráðs á sviði umhverfisverndar. Vill hann e.t.v. færa Ferðamálaráð undir ráðuneyti umhverfismála?