Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:30:05 (2495)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir efni tillögunnar og fagna því að hún skuli komin fram. Hún er mjög einföld í framsetningu en í rauninni er hér um stórt og þýðingarmikið mál að ræða. Eins og fram kom í máli flm. tillögunnar felur ferðaþjónusta á Íslandi í sér mikla möguleika til atvinnusköpunar og við vitum að hér eru margir ónýttir möguleikar í ferðaþjónustu. Eins og ég hef reyndar rakið áður úr þessum stóli, er íslensk ferðaþjónusta að mínum dómi um margt frumstæð. Við eigum mjög margt óunnið í þeim efnum og ég minni á tillögu sem ég mælti fyrir hér fyrir skömmu þar sem bent var á hvernig við gætum nýtt sögu okkar og menningu til þess að efla ferðaþjónustu. En auðvitað verður það svo að náttúra Íslands kallar fyrst og fremst á erlenda ferðamenn hingað vegna þess að hún er um margt sérstök og við erum sem betur fer enn þá að mestu laus við mengandi stóriðju sem spillir umhverfinu. Ég þarf ekki að nefna það hversu mikilvægt það er að verja umhverfi okkar og að það fer ekki saman að einbeita sér að stóriðju og ætla að markaðssetja Ísland sem land hreinnar náttúru og án mengunar. Það sem er því svo mikilvægt í þessu máli er að stefnumörkun eigi sér stað, að menn geri sér grein fyrir því hvert beri að stefna í ferðaþjónustu og hvað það er sem eigi að markaðssetja. Eins og ég hef sagt, er það fyrst og fremst náttúran, en við höfum líka upp á margt annað að bjóða eins og kyrrð og ró og að hér geta menn einbeitt sér að því að byggja upp heilsu sína með gönguferðum og ýmsu öðru. En mikilvægt er að menn hafi eitthvað að skoða og geti snúið sér til einhvers hér á landi og veitt sé sú þjónusta sem tengist ferðamálum. Þar getum við mikið lært af öðrum, ekki síst þjóðum Evrópu.
    Eins og fram kom hjá frsm. er til sjóður hér á landi sem á að styðja við bak ferðaþjónustunnar, en það vill svo til að hann hefur verið skorinn niður ár eftir ár. Á hverju ári er lögð fram tillaga í hinum svokölluðu ,,þrátt-fyrir-ákvæðum`` ýmist í bandormi eða lánsfjárlögum þar sem þessi sjóður er skorinn niður. Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur verið iðinn við þann niðurskurð og þar finnst manni að rétt einu sinni sé verið að skera af þá vaxtarbrodda sem geta orðið til þess að efla atvinnu hér því að í ferðaþjónustunni felast miklir möguleikar til atvinnusköpunar jafnframt því sem hún getur skapað miklar gjaldeyristekjur fyrir þjóðina og það er ekki síst mikilvægt. En menn verða að gæta þess að fara varlega. Við megum ekki flýta okkur um of sem yrði til þess að spilla náttúrunni eða offjárfesta í þessari atvinnugrein eins og við höfum svo oft brennt okkur á. Þar hafa menn t.d. nýlega bent á að kannski sé betra fyrir bændur að fara að hugsa sig um og gæta þess að offjárfesta ekki í ferðaþjónustu bænda. Það er margs að gæta í þessum efnum en ég tek undir það að hér eru miklir möguleikar á ferð. Þess vegna fagna ég tillögunni og tek undir þá meginhugsun sem í henni er að finna.