Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:34:52 (2496)

     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir að flytja þessa tillögu og koma þannig með þetta málefni til umræðu á Alþingi því það virðist sannarlega ekki vera vanþörf á að um það sé rætt og bent á eitthvað af því sem þar þarf að gera. Þar er sannarlega að mörgu að hyggja.
    Við minnumst þess t.d. að fyrir skömmu komu þær fréttir að ríkisstjórnin hygðist leggja á annað söluskattsstig fyrirvaralaust nú í haust m.a. á ferðaþjónustu. Að mati þeirra sem til þekkja hefði það þýtt

að útgjöld hennar hefðu vaxið um 10--11% eftir að búið var að senda verðlista fyrir næsta ár út í lönd þar sem verðið er fast og að sjálfsögðu ekki hægt að hreyfa það. Þetta er dæmi um hvað takmarkaður skilningur virðist vera á máli þessa atvinnuvegar sem samt er talinn vera vaxtarbroddur.
    Hv. 17. þm. Reykv. sagði áðan að í þessari tillögu væri ekki nægilega góð leiðsögn til þess að hann vissi hvernig gera ætti eitthvað til bóta í sambandi við umhverfisvernd sem tengist ferðamálum. Við sem til þekkjum vitum að sums staðar á landinu er mikil aðsókn ferðamanna á viðkvæma staði. Þar er því nauðsynlegt að koma á betra skipulagi. Sem betur fer hefur margt gott verið unnið á síðustu árum. Mikið af því byggist á sjálfboðavinnu t.d. að merkja göngustíga. Þó hefur Ferðamálaráð og fleiri aðilar reynt að styðja þessa áhugamennsku með lágum fjárveitingum af sínum takmörkuðu sjóðum. En ef ferðamönnum fjölgar, eins og við vonumst til að verði á næstu árum, þarf meira að gera. Þetta er ein ábending til hv. 17. þm. Reykv. um hvaða verkefni gæti verið að ræða og nauðsynlegt að gera. Tillagan gerir ráð fyrir því að auka markaðssetningu og vera viðbúinn því að taka við þeirri aukningu.
    Víða um land er mikill áhugi á að vinna betur að ferðamálum. Mönnum er vel ljóst að það dugar ekki eingöngu að byggja hús og bíða síðan eftir því að ferðamennirnir komi. Þeir koma kannski í stórum hópum í örstuttan tíma en síðan ekki meir, þ.e. tímabundið á hverju ári. Nauðsynlegt er að byggja upp skipulega þjónustustarfsemi við ferðamenn til þess að þeir geti haft eitthvað við að vera og að koma þeirra sé ekki eingöngu bundin við þann tíma þegar sól er hæst á lofti. Það er því sannarlega að mörgu að hyggja í þessu sambandi og þörf á að vekja athygli á því og hreyfa þessu máli hér.