Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 16:42:42 (2499)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það með hv. 17. þm. Reykv. að það er mjög hvimleitt þegar menn standa upp hér og svara fyrir konur. Ég upplifði þetta fyrir stuttu þegar ég varpaði fram spurningu til hæstv. félmrh. og hafði hlustað á ræðu hennar að þá stóð upp heldur ófrýnilegur karlkynsráðherra --- ég bið hv. þm. að fara ekki að hlæja, það gæti verið misskilið í Alþýðublaðinu og valdið minnst heillar opnu skrifum ef hann tæki upp á því --- en þá stóð upp heldur brúnaþungur ráðherra og fór að verja og svara fyrir konuna. Ég kunni ekki við þetta, ég segi það alveg eins og er og gerði athugasemdir sem ég veit að hv. 17. þm. Reykv. hefur fullan skilning á.
    En ég þakka stuðning hans við þetta mál. Það er mjög virðingarvert að þingflokksformaður Alþfl. skuli koma strax upp og lýsa stuðningi við málið. Ég veit að honum er ljóst að það litla sem okkur greinir á í þessu máli varðandi Búnaðarbankann kemur ekki að sök. Við teljum að þjóðin geti átt þennan banka og teljum að eigur þjóðarinnar eigi ekki að gefa út um hvippinn og hvappinn jafnvel þó sumum finnist það eðlilegt.
    Það sem kom mér upp er tvennt. Annars vegar að lýsa yfir stuðningi við það að við eigum að virða lögin um Fríhöfnina og sjá til þess að 10% af innkomunni fari til ferðamála. Það er það sem við eigum að gera og hárrétt hjá flm. að það er Alþingi til vansa að það hefur ekki verið gert.
    Hitt atriðið að ekki hefur verið lánað til jökla-, hesta- og bátsferða á Íslandi er aftur á móti alrangt. Það hefur verið lánað til fyrirtækis á Austfjörðum sem sér um jöklaferðir. Það hefur notið stuðnings Byggðastofnunar. Það hefur einnig verið lánað til fyrirtækis á Vesturlandi sem sér um bátsferðir og það hefur líka notið stuðnings Byggðastofnunar. Ég veit að einnig hefur verið lánað til þess sem er þarna er talið upp á milli, þ.e. hestaferða. En umhverfisþátturinn liggur víða eftir.
    Hæstv. heilbrrh. hafði skilning á því þegar hann var formaður í fjárveitinganefnd að umhverfisþátturinn skipti máli. Eitt af því sem við höfum verið að gera er að koma upp þjónustumiðstöðvum. Þjónustumiðstöðin í Skaftafelli er á margan hátt mjög til fyrirmyndar. Aðstöðu við Gullfoss hefur verið komið upp og við þurfum að koma þessu víðar upp þar sem mikill fjöldi ferðamanna kemur. Ég vil sjá slíka þjónustumiðstöð rísa við Látrabjarg. Ég er sannfærður um að þeir sem þangað hafa komið gleyma því ekki.
    En ég stóð ekki upp til þess að svara fyrir flm. heldur fyrst og fremst til þess að þakka hv. 17. þm. Reykv. fyrir að hafa tekið til máls og látið vinsamleg orð falla í garð okkar framsóknarmanna.