Ferðamál

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 17:07:01 (2510)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil enn ítreka það að ég er ekki andsnúinn eðli þessarar þáltill. Ég hef einungis kosið að nota þetta tækifæri til þess að sýna fram á mjög undarlegan málflutning af hálfu Framsfl. Nú er það upplýst að sá hluti greinargerðarinnar sem lýtur að því að verja hluta af andvirði Búnaðarbankans til þess að efla ferðaþjónustu á Íslandi er byggður á missilningi. Sömuleiðis virðist það byggt á einhverjum misskilningi hjá hv. þm. að þessar 100 millj. kr. sem á að verja til sérstaks markaðsátaks á fyrirhuguðu EES-svæði tilheyri tillögunni um aðild okkar að EES. Sá óttalegi grunur læðist að mér að það sé svo margt fleira í stefnu Framsfl. sem birtist þessum þingsölum sem er líka byggt á misskilningi.