Bann við sölu á eignum ríkisins án lagaheimilda

58. fundur
Fimmtudaginn 19. nóvember 1992, kl. 17:23:18 (2516)

     Flm. (Páll Pétursson) :
    Frú forseti. Mér þykir að vísu að því nokkur skaði að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera viðstaddur og ráðherrar allir fjarverandi. Ég hef þó kosið að mæla fyrir frv. og fer ekki fram á að þeir verði sóttir hingað í húsið. Það geri ég vegna þess að ég óttast að ef ég kem ekki málinu til nefndar dragist það úr hömlu og hljóti ekki afgreiðslu.
    Þannig er mál með vexti að þetta frv. er ég búinn að flytja á tveimur fyrrfarandi löggjafarþingum en það varð í hvorugt skiptið útrætt þrátt fyrir það að hér sé á ferð mjög brýnt mál og nauðsynlegt að frv. verði samþykkt. 1. gr. frv. hljóðar þannig:
    ,,Fjármálaráðherra, eða viðkomandi ráðherra, er óheimilt að selja eftirtaldar eignir ríkissjóðs, ríkisstofnana eða sjóða í ríkiseign nema samkvæmt heimild í almennum lögum eða fjárlögum:
    a. fasteignir,
    b. hlutabréf eða eignarhluti í félögum,
    c. skip eða flugvélar,
    d. listaverk, listmuni eða söfn sem geyma menningarverðmæti,
    e. aðrar eignir sem hafa verulegt verðgildi.``
    Síðan er gildistökugrein.
    Sá háttur er á hafður að fjmrh. er óheimilt að selja fasteignir ríkissjóðs skv. 40. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta er fortakslaust ákvæði um fasteignir. Það er ekki einu sinni hægt að selja ómerkilegan skúr í ríkiseign öðruvísi en samþykki Alþingis komi til. Það er því mjög óeðlilegt að ekki gildi sama regla um hlutabréf, eignarhluti í félögum, skip, flugvélar, listaverk, listmuni, menningarverðmæti eða aðrar eignir sem hafa verulegt verðgildi.
    Nú vil ég að það komi strax fram að ég er ekki alfarið á móti því selja ríkiseignir. Það getur alveg átt rétt á sér. Ég er ekki á móti skynsamlegri einkavæðingu þar sem hún við og þar sem hagsmuna ríkisins er fyllilega gætt. En á undanförnum árum höfum við horft upp á fjölmörg afar ljót dæmi þar sem ráðherrar hafa ákveðið sölu á mjög verðmætum eignum ríkisins eða afhent mjög verðmætar eignir ríkisins gegn ómerkilegu gjaldi. Nú hefur núv. ríkisstjórn mikil einkavæðingaráform uppi og þegar af þeirri ástæðu er það alveg nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. Það er ekki sett ríkisstjórninni til höfuðs sem slíkri heldur til að hjálpa henni að láta þessa einkavæðingu sína ganga eðlilega fyrir sig og koma í veg fyrir að hana hendi verulegt slys sem verði þjóðinni til skaða og ríkisstjórninni til skammar.
    Það hefur verið inntak einkavæðingarathafna núv. ríkisstjórnar að afhenda það sem fémætt er af eignum ríkisins til kolkrabbans eða annarra þóknanlegra aðila fyrir lítinn prís. Ég átti þess kost í gærmorgun að sitja stórfróðlegan fund sem BSRB gekkst fyrir á Hótel Sögu. Þar flutti erlendur fyrirlesari ramma og skynsamlega hugvekju um einkavæðingu. Hann rakti reynsluna af thatcherismanum og reaganismanum og hvernig þessar stefnur hafa farið með Breta og Bandaríkjamenn á umliðnum árum. Hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, er ekki í salnum til varnar davíðismanum svo ég minnist ekkert á hann, enda gerði fyrirlesarinn, sem ég var að segja frá, það ekki. Hann skipti einkavæðingarríkisstjórnunum í tvo flokka. Önnur var sú sem hann kallaði heiðarlega, sú sem ekki dyldi einkavæðingaráform sín og í þeim flokkum voru bæði Reagan og Thatcher. Síðan voru aftur hinar sem dulbyggju einkavæðingaráformin. Þær byrjuðu á að stofna hlutafélög og þættust ekki ætla að selja, a.m.k. ekki strax en seldu samt hlutabréfin. Hann benti á að sala ríkisfyrirtækja, og það finnst mér nauðsynlegt að vekja athygli á í þessari umræðu, lagar í sjálfu sér ekki fjárlagahallann. Það þarf allt annað til að laga fjárlagahalla en að selja eignir ríkisins. Ráðherraskipuð stjórn stjórnar fyrirtæki ekkert betur en þingkjörin og starfsmenn batna ekkert þó þeir hafi yfir sér ráðherraskipaða stjórn fremur en þingkjörna. Séu fyrirtæki þess eðlis að þau eigi að reka í gróðaskyni en ekki til að þjóna almenningi þá geti það haft gróðavænleg áhrif að einkavæða þau.
    Frú forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira en legg til að þessu frv. verði vísað til efh.- og viðskn. til athugunar og ég vænti þess að hv. nefnd treysti sér til að mæla með samþykkt þess.