Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 13:35:05 (2518)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér tilkynningu frá ríkisstjórninni um eflingu atvinnulífs:
    Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um aðgerðir til að styrkja stöðu íslensks atvinnulífs og sporna gegn auknu atvinnuleysi.
    Á undanförnum vikum hafa ríkisstjórn, aðilar á vinnumarkaði og fulltrúar sveitarfélaga rætt leiðir til að treysta atvinnulíf. Þannig verður þess freistað að koma í veg fyrir að atvinnuleysi aukist á næsta ári og um leið lagður grunnur að öflugra atvinnulífi og auknum hagvexti á næstu árum. Aðgerðirnar munu

bæta ástandið á næstunni en beinast enn frekar að því að bæta samkeppnisskilyrði íslenskra atvinnuvega til framtíðar, m.a. með því að laga skattakjör þeirra að aðstæðum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
    Mikilvægasta vörnin fyrir þá sem lægst laun hafa er að varðveita stöðugleika, enda er það meðal meginmarkmiða aðgerðanna. Um leið eru útflutningsgreinum sköpuð öruggari framtíðarskilyrði.
    Lögð verður áhersla á nýsköpun í íslensku atvinnulífi með öflugra rannsóknar- og þróunarstarfi í þágu atvinnulífs og með eflingu markaðsstarfs.
    Breytingum á skattkerfi og ráðstöfunartekjum einstaklinga er hagað þannig að þeir taka meira á sig sem betur standa. Með þessum aðgerðum er einnig stefnt að því að raunvextir geti lækkað. Þróun í vaxtamálum hlýtur þó einnig að ráðast af efnahagsskilyrðum og ekki síst af ytri skilyrðum þjóðarbúsins.
    Seðlabanki hefur í dag ákveðið að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að lækka gengi íslensku krónunnar um 6%. Ríkisstjórnin hefur ákveðið eftirfarandi aðgerðir:
    1. Bætt starfsskilyrði atvinnuveganna:
    Aðstöðugjald verður fellt niður en sveitarfélögum bætt upp tekjutap til bráðabirgða á árinu 1993 með hlutdeild í tekjum ríkisins. Á árinu 1993 verður unnið að því af hálfu ríkisstjórnar og Sambands ísl. sveitarfélaga sameiginlega að finna sveitarfélögum tekjur í stað aðstöðugjalds.
    2. Sérstakar aðgerðir til að treysta atvinnu og efla rannsóknir og þróun:
    a. Í fjárlagafrv. næsta árs er gert ráð fyrir 2 milljörðum króna til framkvæmda til að treysta atvinnu, einkum til vegaframkvæmda.
    b. Í tengslum við afgreiðslu fjárlagafrv. var ákveðið að verja verulega auknu fé til rannsóknar- og þróunarstarfsemi og til markaðsmála.
    c. Samkomulag er um að sveitarfélögin leggi Atvinnuleysistryggingasjóði til 500 millj. kr. til verkefna sem auka atvinnu.
    d. Varið skal 500 millj. kr. til aðgerða í atvinnumálum á Suðurnesjum í samstarfi sveitarfélaga, Íslenskra aðalverktaka og annarra fyrirtækja.
    e. Varið verður 500 millj. kr. til sérstakra framkvæmda við byggingu og viðhald opinberra mannvirkja.
    3. Tekjuöflun vegna aðgerða til að treysta atvinnulíf:
    a. Tekjuskattshlutfall einstaklinga verður hækkað um 1,5%.
    b. Næstu tvö árin verður lagður sérstakur skattur á háar tekjur, 5% á mánaðartekjur yfir 200 þús. kr. hjá einstaklingi og 400 þús. kr. hjá hjónum.
    c. Breytingar verða gerðar á álagningu virðisaukaskatts með því að fækka undanþágum í áföngum á árinu 1993. Þannig verður 14% skattur lagður á húshitun og á afnotagjöld útvarps og sjónvarps frá 1. jan. 1993, á bækur, blöð og tímarit frá 1. júlí 1993, og á hótelgistingu og fólksflutninga frá 1. sept. 1993. Jafnframt verður tryggingagjald á hótelgistingu og fólksflutninga lækkað úr 6% í 2,5% 1. sept. 1993. Frá 1. jan. 1993 verður endurgreiðsla af virðisaukaskatti af vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði lækkuð í 60%. Almennt skatthlutfall virðisaukaskatts verður óbreytt, 24,5%.
    d. Bensíngjald verður sérstaklega hækkað um 1,50 kr. á hvern lítra frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Þessi hækkun rennur í ríkissjóð.
    e. Viðmiðunarmörk reiknaðra launa einstaklinga í atvinnurekstri verða hækkuð um 15% og skatteftirlit hert verulega.
    f. Útgjöld vegna barnabóta verða lækkuð um 10%.
    g. Vaxtabætur verða teknar til endurskoðunar í því skyni að draga úr útgjöldum vegna þeirra.
    h. Dregið verður úr ríkisútgjöldum um 1.240 millj. kr. frá fjárlagafrv. til að hamla gegn skuldasöfnun.
    4. Aðgerðir til vaxtalækkunar:
    a. Með auknu aðhaldi í ríkisfjármálum og með því að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera verður stefnt að því að skapa forsendur fyrir lækkun vaxta.
    b. Útgáfa húsbréfa verður skoðuð með hliðsjón af þróun vaxta á lánsfjármarkaði og af þróun á fasteignamarkaði en gert er ráð fyrir minni fasteignaviðskiptum vegna almenns samdráttar í þjóðfélaginu sem leiði þá til minni útgáfu húsbréfa.
    c. Áfram verður haldið samráði við lífeyrissjóði í því skyni að stuðla að betra jafnvægi á lánsfjármarkaði og auka þátttöku þeirra í fjármögnun atvinnuveganna.
    d. Lagaákvæði um ákvörðun dráttarvaxta verða endurskoðuð með það í huga að lækka þá um 2--2,5%.
    e. Seðlabanka hefur verið veitt rýmri heimild til ákvörðunar bindiskyldu en lækkun hennar stuðlar að lægri vöxtum og lengingu lánstíma.
    5. Fjárhagsleg endurskipulagning í sjávarútvegi:
    Ríkisstjórnin mun hlutast til um að fram fari fjárhagsleg endurskipulagning í sjávarútvegi. Stofnaður verði þróunarsjóður sjávarútvegsins. Hlutverk sjóðsins verði að draga úr afkastagetu í sjávarútvegi. Sjóðurinn sinni hlutverki sínu með því að kaupa eignir sjávarútvegsfyrirtækja og úrelda fiskiskip. Sjóðurinn verður í eign ríkisins og hefur sérstaka þriggja manna stjórn sem heyrir undir sjútvrn. og skal einn tilnefndur af samtökum atvinnurekenda í sjávarútvegi. Tekjur sjóðsins verði með eftirfarandi hætti:
    Gjald sem leggst á fiskiskip og fari gjaldið eftir stærð skipa.
    Gjald sem lagt er á fasteignamat þeirra fasteigna sem nýttar eru til fiskvinnslu.
    Tekjur af eignum.
    Frá og með kvótaárinu 1996--1997 verði ákveðið þróunargjald lagt á úthlutuð þorskígildi.
    Sjóðnum verði enn fremur heimilt að greiða fyrir þátttöku íslenskra útvegsfyrirtækja í verkefnum og fyrirtækjum erlendis, þar með talið öflun veiðiheimilda. Það getur sjóðurinn gert með því að ábyrgjast greiðslu að hluta af áhvílandi veðskuldum fiskiskipa í tiltekinn tíma í samvinnu við aðrar lánastofnanir. Enn fremur er sjóðnum heimilt að greiða hluta af kostnaði við öflun slíkra verkefna.
    Ég vil gera nokkra grein fyrir þessum þáttum frekar.
    Á undanförnum vikum og mánuðum hefur mikill órói verið á alþjóðagjaldeyrismarkaði. Þetta hefur orðið til þess að verulegar breytingar hafa orðið á gengi gjaldmiðla sem miklu máli skipta fyrir íslenskar útflutningsafurðir. Þar munar mest um gengislækkun sterlingspundsins, en einnig má nefna lækkun á gengi spánska pesetans, portúgalska eskúdóans, ítölsku lírunnar og sænsku krónunnar. Séu þessar breytingar metnar eftir hlutdeild þessara landa í útflutningi Íslendinga fela þær í sér að gengi krónunnar var í raun orðið rúmlega 3% hærra en það var í byrjun september. Um leið veikja þessar gengisbreytingar mjög samkeppnisstöðu íslenskra afurða á mikilvægum mörkuðum. Í ljósi þessara atburða er óhjákvæmilegt að gera nú breytingu á gengi krónunnar og verður gengi hennar lækkað um 6%. Leitast er við að halda gengisbreytingu í lágmarki, enda er gripið til víðtækra annarra aðgerða til að treysta stöðu atvinnulífsins. Gengi krónunnar verður haldið stöðugu miðað við óbreytta gengisvog og fráviksmörk en vegna óvissu á gjaldeyrismarkaði verður einnig höfð hliðsjón af útflutningsvog við daglega ákvörðun gengis.
    Veigamikill þáttur í þeim aðgerðum sem hér er fjallað um er afnám aðstöðugjalds. Eftir því sem alþjóðaviðskipti verða frjálsari og samkeppni harðnar verður mikilvægara að skapa íslensku atvinnulífi sambærileg skattakjör og helstu keppinautum. Þess vegna er orðið brýnt að afnema aðstöðugjaldið. Með þessari aðgerð og fyrirhugaðri lækkun tekjuskatts félaga úr 45% í 33% má telja að skattlagning atvinnurekstrar á Íslandi sé með því hóflegasta sem þekkist í nálægum löndum. Þetta styrkir mjög stöðu íslensks atvinnulífs í samkeppni á EES-markaði auk þess sem þetta hefur áhrif á áhuga erlendra fyrirtækja að fjárfesta á Íslandi.
    Afnám aðstöðugjalds hefur veigamikil áhrif á fjárhag sveitarfélaga og breytingin er meiri en svo að unnt sé að ákveða fyrirvaralítið hvernig henni verður mætt til frambúðar. Þess vegna er ákveðið að sveitarfélögin fái á árinu 1993 tekjur úr ríkissjóði sem nemi 80% af aðstöðugjaldi af stofni ársins 1992. Aðstöðugjald verður því að formi til lagt á á árinu 1993 miðað við sama álagningarhlutfall og 1992, en eingöngu til að ákveða endanlega greiðslu ríkissjóðs til hvers sveitarfélags. Greiðslunum verður hins vegar jafnað mánaðarlega niður á árið.
    Þetta fyrirkomulag gildir til bráðabirgða á árinu 1993. Næsta ár verður notað til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga í því skyni að finna sveitarfélögunum varanlegar tekjur í stað aðstöðugjaldsins. Þessi endurskoðun verður gerð sameiginlega af fulltrúum ríkisstjórnar og Sambands ísl. sveitarfélaga og er stefnt að því að nýtt tekjuöflunarkerfi sveitarfélaganna verði tekið upp í ársbyrjun 1994.
    Tryggingagjald á ferðaþjónustu og fólksflutninga verður lækkað úr 6% í 2,5% 1. sept. 1993.
    Niðurfelling aðstöðugjalds og lækkun tryggingagjalds kallar á tekjuöflun enda er afar brýnt að þessar aðgerðir veiki ekki fjárhag ríkissjóðs. Tekjuöflun ríkisins er hins vegar að stærstum hluta tímabundin meðan verið er að finna sveitarfélögum nýjar tekjur. Skatthlutfall ríkisins hækkar því á næsta ári en það mun síðan lækka aftur strax á árinu 1994. Skatthlutfall hins opinbera í heild breytist hins vegar lítið á næsta ári.
    Á tekjuhlið eru þrenns konar aðgerðir.
    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir sérstakri hækkun á tekjuskatti einstaklinga um 1,5%. Auk þess er áformað að leggja á sérstakan tímabundinn skatt á tekjur umfram 200 þús. kr. á mánuði hjá einstaklingum, 400 þús. kr. hjá hjónum. Þessi skattur verður innheimtur í staðgreiðslu og kemur síðan til endanlegs uppgjörs við álagningu árið eftir.
    Í aðgerðunum felast breytingar á virðisaukaskatti, fækkun á undanþágum sem verða nú felldar inn í skattkerfið með sérstöku 14% skattþrepi. Þessar breytingar koma í staðinn fyrir þær breytingar sem kynntar voru í fjárlagafrv. Við upptöku skatts á þeim sviðum sem áður voru undanþegin fá þau sömu meðferð í skatti og önnur skattskyldusvið, þ.e. allur innskattur er frádráttarbær. Þessi leið er mun einfaldari og öruggari en að fella niður frádrátt á innskatti.
    Þessi breyting verður í þremur áföngum. Í fyrsta áfanga, sem kemur til framkvæmda um næstu áramót, verður undanþága vegna húshitunar og afnotagjalda útvarps og sjónvarps felld niður. Jafnframt verður endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu iðnaðarmanna við íbúðarhúsnæði lækkuð í 60%. Í öðrum áfanga, sem tekur gildi um mitt næsta ár, fellur undanþága vegna sölu bóka og blaða og tímarita niður. Í þriðja áfanga, sem tekur gildi í september á næsta ári, er gert ráð fyrir að undanþága vegna fólksflutninga og ferðaþjónustu falli niður, en um leið lækkar tryggingagjald af þessum greinum úr 6% í 2,5%.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að hækka bensíngjald um 1,50 kr. Enn fremur verða reglur um reiknuð laun einstaklinga í atvinnurekstri til viðmiðunar í staðgreiðslu endurskoðaðar með það fyrir augum að

hækka viðmiðunarmörk. Jafnframt er áformað að gera sérstakt átak í skatteftirliti.
    Á útgjaldahlið er gripið til enn frekari sparnaðaraðgerða en fólust í fjárlagafrv. sem nema rúmlega 1.200 millj. kr. á næsta ári og um 600 millj. kr. árið 1994. Jafnframt er gert ráð fyrir að lækka útgjöld ríkissjóðs vegna barnabóta um 10% á næsta ári. Auk þess verða gildandi reglur um vaxtabætur endurskoðaðar til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi aukningu en þetta hefur þó ekki áhrif á fjárhag ríkissjóðs fyrr en á árinu 1994.
    Samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1993 var gert ráð fyrir 6,2 milljarða kr. halla á ríkissjóði á næsta ári. Þar af má rekja 2 milljarða til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um sérstakar aðgerðir til að treysta atvinnu á næsta ári, einkum til vegaframkvæmda.
    Með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er afkoma ríkissjóðs styrkt um rúmlega 2 milljarða á næstu tveimur árum eða sem nemur u.þ.b. þriðjungi rekstrarhallans. Þetta er nauðsynlegt til þess að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta. Jafnframt stuðla aðgerðir ríkisstjórnarinnar að því að treysta atvinnulífið og stöðva aukningu atvinnuleysis.
    Það er ekki aðeins lánsfjárþörf ríkissjóðs sem áhrif hefur á vaxtastigið í landinu. Önnur fjáröflun fyrir atbeina ríkissjóðs skiptir þar einnig máli, svo sem útgáfa húsbréfa sem eru með ríkisábyrgð. Þess vegna er nauðsynlegt að haga útgáfu húsbréfa með hliðsjón af þróun vaxta á lánsfjármarkaði jafnframt því sem þess verður gætt að valda ekki alvarlegri truflun á fasteignamarkaði. Reyndar bendir margt til þess að útgáfa húsbréfa muni dragast talsvert saman á næsta ári vegna efnahagsástandsins.
    Skuldabréfaviðskipti lífeyrissjóða og opinberra aðila hafa sérstaklega verið rædd við fulltrúa lífeyrissjóðanna og þá einkum hvað hver aðili um sig getur gert til að stuðla að betra jafnvægi á lánamarkaði og lægri vöxtum. Einnig hafa þessir sömu aðilar rætt aukna þátttöku lífeyrissjóðanna í fjármögnun atvinnulífsins með auknum hlutabréfakaupum. Stefnt er að því að á árinu 1993 og 1994 auki lífeyrissjóðir landsmanna þátttöku sína í fjármögnun atvinnulífsins með því að verja a.m.k. 5% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á hlutabréfum í íslenskum fyrirtækjum. Þetta munu vera um 1,8 milljarðar á ári.
    Aðrar aðgerðir í vaxtamálum snúa m.a. að dráttarvöxtum. Gerðar verða breytingar á vaxtalögum í ljósi breyttra aðstæðna í þjóðarbúskapnum, þ.e. að verðbólgan er nú lítil og núgildandi dráttarvextir því allt of háir. Lágmarksálag er nú 5% en lagt verður til að lágmarksálag falli niður og kveðið verði á um 6% hámarksálag. Verði þessar lagabreytingar gerðar mun Seðlabankinn nýta þessa heimild og lækka álagið úr 5% í 2,5--3%.
    Viðskrn. hefur óskað tillagna Seðlabankans um endurskoðun á reglum um bindiskyldu í því skyni að bindiskylda geti orðið sveigjanlegri en nú er og m.a. verði unnt að lækka hana og beita á þann hátt að hún stuðli að lengingu lánstíma við skilyrði stöðugleika í efnahagslífinu.
    Með þessum aðgerðum er stefnt að því að raunvextir geti lækkað en afar erfitt er að spá fyrir um hversu mikið og hvenær það muni gerast. Einnig þarf að hafa í huga að þróun í vaxtamálum ræðst einnig af efnahagsskilyrðum almennt og ekki síst af ytri skilyrðum þjóðarbúsins.
    Þjóðhagsstofnun hefur metið þjóðhagsleg áhrif aðgerðanna og áhrif á afkomu sjávarútvegsins sérstaklega og hefur greinargerð verið dreift um það efni í þinginu.
    Áhrif aðgerðanna felast einkum í þrennu: Í fyrsta lagi styrkist staða atvinnulífsins, einkum útflutnings- og samkeppnisgreina. Þetta stafar af lækkun á gengi krónunnar og að sköttum er létt af atvinnulífinu. Í öðru lagi dregur úr þjóðarútgjöldum frá því sem áður var gert ráð fyrir sem leiðir til minnkandi viðskiptahalla gagnvart útlöndum. Í þriðja lagi batnar afkoma ríkissjóðs, sérstaklega þegar horft er til næstu tveggja ára.
    Í þjóðhagsáætlun var gert ráð fyrir að verðbólga yrði mjög lítil á næsta ári eða um 2%. Gengislækkunin hefur í för með sér aukna verðbólgu. Á móti vega áhrif aðgerðanna á kostnað fyrirtækja þannig að verðbólga verður um eða innan við 4,5% á næsta ári. Þá er byggt á þeirri forsendu að laun hækki ekki á næsta ári. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er nú talinn dragast saman um 4,4% milli áranna 1992 og 1993, borið saman við 0,9% á forsendum þjóðhagsáætlunar.
    Mjög erfitt er að ráða í þróun atvinnuleysis á næstu missirum í ljósi þeirra óvenjulegu aðstæðna sem nú eru í þjóðarbúskapnum. Sú styrking á stöðu atvinnulífsins sem felst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar bætir atvinnuhorfur frá því sem annars hefði orðið, sérstaklega þegar líður á næsta ár og á árinu 1994 þótt þær nái varla að stöðva aukningu atvinnuleysis á næstu mánuðum.
    Með gengisbreytingunni og aðgerðum ríkisstjórnarinnar lækkar raungengi (á mælikvarða verðlags) um 5,2% milli áranna 1992 og 1993. Samkeppnisstaða atvinnulífsins verður reyndar betri en þessar tölur sýna því raungengi krónunnar lækkar meira á mælikvarða hlutfallslegra launa.
    Í þjóðhagsáætlun voru taldar horfur á um 12 milljarða kr. halla á viðskiptajöfnuði við útlönd á árinu 1993. Með lækkun þjóðarútgjalda í kjölfar efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar má ætla að viðskiptahallinn verði um 4 milljörðum kr. minni á næsta ári eða rúmlega 8 milljarðar kr. Áhrif aðgerðanna koma ekki að fullu fram fyrr en árið 1994 og því er reiknað með að hallinn minnki enn frekar á því ári.
    Minni umsvifum í þjóðarbúskapnum og minni viðskiptahalla fylgir óhjákvæmilega að landsframleiðsla og þjóðartekjur dragast meira saman en reiknað var með í þjóðhagsáætlun. Nú er talið að landsframleiðsla dragist saman um 1,4% á árinu 1992 í staðinn fyrir 0,6% í þjóðhagsáætlun. Þjóðartekjur dragast meira saman vegna rýrnandi viðskiptakjara eða um 2,4% borið saman við 1,6% í þjóðhagsáætlun.

    Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar frá því í september sl. er halli botnfiskveiða og -vinnslu talinn um 8% miðað við verð- og kostnaðarskilyrði á þeim tíma og aflahorfur á næsta ári. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar er talið að afkoman batni um tæplega 5%. Til viðbótar má nefna að lækkun innlendra raunvaxta getur einnig komið greininni til góða. Í því sambandi má nefna að lækkun þeirra um 1 prósentustig skilar tæplega 0,5% afkomubata.
    Þá má enn nefna það sem getið var um í yfirlýsingunni um hina fjárhagslegu endurskipulagningu í sjávarútvegi. Þó erfitt sé að meta þann afkomubata sem greinin hlýtur af þeirri breytingu er ekki vafi á að í þeim breytingum felst töluverður afkomubati. Með þeirri niðurstöðu einnig hafa ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir náð endanlega saman um stefnumótun í sjávarútvegsmálum og sátt innan þeirrar nefndar sem að þeim málum hefur unnið. Er ljóst að sú niðurstaða mun skapa aukið traust og aukinn stöðugleika í sjávarútvegi á næstu árum.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að efla atvinnulíf í landinu.