Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 13:53:23 (2519)

     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegur forseti. Hæstv. ríkisstjórn hefur stundað það upp á síðkastið að auglýsa allvel að hún hefði gott samráð ekki aðeins við aðila vinnumarkaðarins heldur einnig við stjórnarandstöðuna. Við mættum m.a. á fundi hjá hæstv. forsrh. sl. miðvikudag. Satt að segja var fátt nefnt þar af því sem forsrh. hefur nú farið yfir. Ég fékk í hendurnar þessa greinargerð sem forsrh. las að hluta núna ásamt greinargerð Þjóðhagsstofnunar fjórum mínútum áður en ég gekk á þennan fund.
    Það er varla hægt að segja að samráð sé mikið. Ég held að hæstv. forsrh. hefði átt að taka sér eins og hálftíma af sínum mikilvægu önnum og kalla á forustu stjórnarandstöðunnar til að upplýsa hana um það sem hér hefur verið gert nokkru fyrir þennan fund.
    Ég skal því ekki fara mörgum orðum um þetta en áskil okkur rétt til að ræða þetta mál langtum ítarlegar á fundi sem t.d. gæti orðið á morgun. Mér sýnist eiginlega þrennt einkenna þær aðgerðir sem nú eru boðaðar.
    Þær koma í fyrsta lagi allt of seint. Í öðru lagi ná þær hvergi nærri að leysa þann vanda sem að steðjar í dag. Í þriðja lagi held ég að ekkert standi eftir af loforðum hæstv. forsrh. frá því fyrir síðustu kosningar.
    Í raun verður að rekja aðdraganda þeirra erfiðleika sem nú eru til upphafs þessarar ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin mætti ekki þeim erfiðleikum sem þá voru augljósir vegna minni afla með nauðsynlegum aðgerðum. Þvert á móti gerði ríkisstjórnin sér lítið fyrir og hækkaði vexti um þriðjung með einu pennastriki. Hún lagði miklar álögur á sjávarútveginn og eyddi Hagræðingarsjóðnum sem var ákaflega mikilvægur að sjálfsögðu fyrir sjávarútveginn til að gera honum kleift að hagræða til að mæta afleiðingunum.
    Ég er ekki í nokkrum vafa um að með langtum sársaukaminni aðgerðum hefði verið unnt að halda íslensku atvinnulífi í sæmilegri stöðu í dag. Í stað þess hefur ríkisstjórnin fylgt hinni svokölluðu aðgerðaleysisstefnu eða frjálshyggju sem alls staðar hefur löngu verið gefin upp á bátinn, jafnvel í Bretlandi þótt þar sitji enn þá íhaldsstjórn við völd.
    Ég segi líka: Ekki nær þetta nógu langt. Í því mati sem fylgir með frá Þjóðhagsstofnun er metið að þessar aðgerðir geti verkað fyrir sjávarútveginn um plús 4,9% en samkvæmt áætlun þeirrar sömu stofnunar er augljós afkoma sjávarútvegsins nú í mínus 8%. Mér þykja þó satt að segja áhrifin af gengislækkun krónunnar nokkuð hátt metið hjá Þjóðhagsstofnun. Þau eru metin upp á plús 3,2% en ég hygg að flestir þeir sem í sjávarútvegi starfa muni telja að áhrif af gengisfellingar verði vart meira en þriðjungur af því sem gengið fellur, eða í þessu tilfelli um u.þ.b. 2%. Því veldur að sjálfsögðu, eins og oft hefur komið fram, mikil skuldsetning sjávarútvegsins. Því segi ég að þessar aðgerðir ná hvergi nærri nógu langt.
    Við framsóknarmenn erum því fylgjandi að fella niður aðstöðugjald af íslensku atvinnulífi og teljum satt að segja að það hefði þurft að gerast fyrr. Við samþykktum það í síðustu ríkisstjórn og hófum þá viðræður við sveitarfélögin um að fella niður aðstöðugjaldið en því miður náðist ekki um það samkomulag. Þá var beðið um eins árs frest. Mér kemur nokkuð á óvart að ríkisstjórnin skuli ekki jafnvel eftir margra mánaða viðræður við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins hafa ákveðið hvernig á að bæta sveitarfélögunum upp þennan tekjumissi. Hér kemur fram að það verði gert til bráðabirgða með því að greiða úr ríkissjóði og að síðan verði tekin ákvörðun um það hvernig það verði gert varanlega. Þetta skapar að sjálfsögðu afar mikla óvissu.
    Ég sé hins vegar ekki neinar nýjar aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi. Enda kemur fram í orðum hæstv. forsrh. að hann treystir sér ekki á þessari stundu til að meta hvort þessar aðgerðir dragi í raun úr atvinnuleysi og boðar reyndar að að öllum líkindum muni atvinnuleysi fara vaxandi á næsta ári. Það sem hér er talið undir sérstökum aðgerðum til að treysta atvinnu og efla rannsóknir og þróun er ekkert nýtt. Þar eru taldar upp þær aðgerðir sem boðaðar hafa verið með fjárlagagerðinni en í raun er ekki allar að finna þar, t.d. aukið fjármagn til Rannsóknasjóðs. Hér er enn talað um 2 milljarða til að flýta vegaframkvæmdum sem ég ætla alls ekki að gera lítið úr en vek athygli á því að þetta verður að borga aftur með minni framkvæmdum í vegamálum á árunum 1994, 1995 og 1996. Ekkert fjármagn er lagt fram til nýsköpunar í atvinnulífinu. Það er ekkert áhættufjármagn, engin viðleitni til að slá dálítið á þá miklu svartsýni sem nú

ríkir sem er kannski það mikilvægasta sem þessi ríkisstjórn gæti gert.
    Í þriðja kafla er fjallað tekjuöflun vegna aðgerða til að treysta atvinnulíf. Það er nokkuð athyglisvert að undir þeim kafla er talinn virðisaukaskattur sem nú á að leggja á bækur og ferðaþjónustu. Ég held að þetta hljóti að vera misskilningur. Varla getur það verið talið til að treysta ferðaþjónustuna í landinu að leggja 14% virðisaukaskatt á ferðaþjónustu frá 1. sept. 1993. Ferðaþjónustan á nú í mjög mikilli og erfiðri samkeppni. Það er enginn vafi á því að samkeppnisaðstaða ferðaþjónustunnar er orðin afar bágborin. Að vísu er gert ráð fyrir að lækka á móti tryggingagjald. En ég hef a.m.k. ekki séð hér neina útreikninga á því að það jafni þá 14% álagningu virðisaukaskatts sem er talin til að treysta atvinnulífið í landinu. Ég held satt að segja að það hljóti að vera augljóst að það tryggingagjald sem verður lækkað úr 6% í 2,5% geri hvergi nærri að mæta þeirri hækkun álagningar sem ferðaþjónustan mun þurfa að þola.
    Ég vil einnig harma það að hér er tekin sú ákvörðun að leggja 14% virðisaukaskatt á útgáfu bóka og tímarita. Við framsóknarmenn hefðum að öllum líkindum getað fallist á að leggja einhvern virðisaukaskatt á bækur og tímarit þó það þurfi langtum nánari athugunar við en ég er persónulega þeirrar skoðunar að ef við ætlum að halda þeirri stöðu sem íslensk bókaútgáfa hefur sem betur fer haldið um langa tíð þá mætti sá skattur ekki vera yfir 5--6%.
    Undir ,,Tekjuöflun vegna aðgerðar til að treysta atvinnulífið`` er talað um að bensíngjaldið verði sérstaklega hækkað um 1,50 kr. á hvern lítra. Atvinnulífið greiðir líka kostnað við bensín og hér er ekki um neitt annað að ræða en almenna álögu á almenning og atvinnulífið í landinu.
    Ég tek undir það og fagna því að hér á að auka skatteftirlit og ég tel réttmætt að hækka nokkuð viðmiðunarmörk. Ég get hins vegar ekki metið hvernig ýmislegt annað sem hér er rakið muni koma út. Ég þarf lengri tíma til þess.
    Hér er jafnframt sagt að dregið verði úr ríkisútgjöldum um 1.240 millj. kr. frá fjárlagafrv. til að hamla gegn skuldasöfnun. Vel getur verið að draga megi eitthvað út ríkisútgjöldum. Þó væri afar fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það ef hæstv. forsrh. eða fjmrh. geta upplýst okkur um hvar meiningin er að bera niður. Er ætlunin að lækka t.d. enn útgjöld til menntamála eða til heilbrigðismála þar sem okkur þykir mörgum mjög ríflega hafa verið skorið niður?
    Ekki eru heldur aðgerðir til vaxtalækkunar miklar. Ég leyfi mér að fullyrða að það sem hér er talið muni því aðeins leiða til vaxtalækkunar að ríkisstjórnin beiti handaflinu svokallaða einnig. Ég er sannfærður um að það muni þurfa verulegan þrýsting á bankastofnanir til að taka þessar aðgerðir sem örugga vísbendingu um að þeir geti lækkað vexti. Að vísu verður fróðlegt að vita hve Seðlabankinn muni lækka bindiskylduna mikið. Hann fær heimild til þess en það er aðgerð sem ég sannarlega viðurkenni að getur orðið til þess að lækka vexti. Ég held hins vegar að til þess að vextir lækki hér svo um munar sé óhjákvæmilegt að ríkissjóður dragi til baka þá hækkun vaxta sem hann framkvæmdi í upphafi starfa þessarar ríkisstjórnar. Það er nánast útilokað fyrir bankana að keppa við ríkissjóð um innlánsfjármagn þegar vextir ríkissjóðs eru svona háir. Ég er reyndar einnig þeirrar skoðunar að vel gæti komið til greina fyrir ríkisstjórnina að fela Seðlabankanum að auðvelda viðskiptabönkunum að dreifa nokkuð afskrift þeirra miklu galdþrota og tapa sem fallið hafa á bankana að undanförnu. Með öðrum orðum óttast ég að þær aðgerðir sem hér eru taldar til vaxtalækkunar beri lítinn árangur nema meira fylgi á eftir.
    Ég sagði í upphafi míns máls að samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar eiga aðgerðirnir að bæta afkomu sjávarútvegsins um 4,9%. Það heyrist mér á mönnum sem í sjávarútvegi starfa að muni vera nokkuð ofreiknað. Ég nefndi áðan sérstaklega áhrif gengislækkunar. Hvernig hugsar ríkisstjórnin sér að gera sjávarútveginum kleift að þola það sem nú er 8% rekstrartap og mundi vera samkvæmt þessum útreikningum 3%? Er honum ætlað að bera það án þess að rekstrargrundvöllur verði lagaður frekar?
    Í kafla um fjárhagslega endurskipulagningu í sjávarútvegi er að finna nokkurn fróðleik. Þar er rætt um að stofna þróunarsjóð sjávarútvegsins og ég get tekið undir það. Ég held að mikil þörf sé á sjóði til að stuðla að því að fiskvinnslustöðvar verði úreltar og afkastageta í sjávarútvegi verði minni. Ég vek hins vegar athygli á því að á sama tíma hefur ríkissjóður raunar fellt niður hlutverk Hagræðingarsjóðs svo að þar er ekkert orðið. Það er einnig athyglisvert að sjávarútveginum er ætlað að greiða sjálfum kostnað við starfsemi þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Hér er boðað að gjald skuli leggja á fiskiskip og fari gjaldið eftir stærð skipa. Hér er einnig boðað að gjald sem lagt er á fasteignamat þeirra fasteigna sem nýttar eru til fiskvinnslu skuli renna í þróunarsjóð sjávarútvegsins.
    Þá vekur það ekki síst athygli að hér er boðað að frá og með kvótaárinu 1996--1997 verði ákveðið þróunargjald lagt á úthlutuð þorskígildi. Er þetta veiðileyfagjaldið sem Alþfl. hefur barist fyrir? Er þetta gulrótin sem hæstv. utanrrh. fékk fyrir að taka við ýmsu því sem ég held að hljóti að ganga nokkuð gegn stefnu Alþfl. ef hún er þá til?
    Það væri satt að segja afar fróðlegt að fá að heyra frá hæstv. sjútvrh. hvort hann telur að þessar aðgerðir í þágu sjávarútvegsins séu fullnægjandi. Það er vitanlega nauðsynlegt að fá að vita það. Sömuleiðis vildi ég mjög gjarnan spyrja hæstv. sjútvrh. að því hvernig hann metur þetta þróunargjald. Eru nokkrar upplýsingar um það hve hátt þetta gjald gæti orðið á úthlutaðan kvóta á árunum 1996--1997? Telur hann þetta vera upphaf að veiðileyfagjaldi eða hvernig skýrir hann það ef svo erekki?
    Hér er vissulega ýmislegt fleira sem mætti ræða, t.d. að draga eigi saman útgáfu á húsbréfum. Það kemur ekki fram hvað það er mikið og hæstv. félmrh. hefur tekið því heldur illa. Mig minnir að hæstv.

félmrh. hafi enn einu sinni lofað að segja af sér ef það yrði gert en hún hefur ekki gert það enn þá svo líklega er ekki hætta á því. Eru nokkrar nánari upplýsingar um þessa minni útgáfu á húsbréfum?
    Þannig er það því miður, virðulegi forseti, að það er æðimargt sem spyrja þyrfti um. Staðreyndin er sú, eins og ég sagði í upphafi að a.m.k. ég, og ég hygg að eins sé farið með aðra stjórnarandstöðuþingmenn, við höfum alls ekki haft það tækifæri sem við þurfum að hafa til að skoða þessar aðgerðir. Við höfum t.d. ekkert tækifæri haft til að ræða við aðila úr atvinnulífinu og launþega um þessar aðgerðir. Við höfum ekki haft tækifæri til þess að ræða við forstjóra Þjóðhagsstofnunar og fleiri mætti telja. Reyndar væri fróðlegt að vita hvort þessar aðgerðir sem hér eru boðaðar eru gerðar í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Ekki fór svo lítið fyrir því samráði vikum saman áður en þessar aðgerðir voru boðaðar.