Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:36:07 (2528)


     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í stuttu andsvari er ekki ráðrúm til þess að nefna nema eitt atriði sem fram kom í ræðu hæstv. utanrrh. Í rauninni eru stærstu tíðindin í þessum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar þau að ríkisstjórnin og þá einkum og sér í lagi Alþfl. heykist á því að leggja á fjármagnsskatt. Formaður Alþfl. nefndi það sér til varnar áðan að það hefði ekki verið hægt að leggja þennan skatt á vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins hefðu viljað undanþiggja fyrirtækin og lífeyrissjóðina þessum fjármagnsskatti. Hér er auðvitað um svo alvarlegan blekkingarleik að ræða að ekki er hægt að láta ómótmælt.
    Það er einfaldlega þannig og það þekkja allir sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál að vaxtatekjur fyrirtækja koma inn í rekstur þeirra með venjulegum hætti og síðan koma auðvitað vaxtagjöld þar á móti og mismunurinn er skattlagður eins og aðrar tekjur og önnur gjöld. Þegar við erum að tala um fjármagnsskatt, þá erum við að tala um fjármagnsskatt á einstaklinga vegna þess að það er hann sem er undanþeginn. Vaxtatekjur einstaklinga umfram vaxtagjöld einstaklinga eru ekki skattlögð. Það er undanþágan í okkar kerfi í dag, þessi furðulega undanþága sem hefur verið við lýði um langt skeið og menn hafa verið að tala um að afnema og koma á fjármagnsskatti. Þá erum við fyrst og fremst að tala um tekjuskatt einstaklinga. Það gilda sérreglur um hann. Um tekjuskatt fyrirtækja gilda allt aðrar reglur eins og menn vita. Þar af leiðandi er sú afsökun hæstv. utanrrh. algerlega út í hött að blanda fjármagnsgreiðslum fyrirtækjanna inn í þetta. Það er í engu öðru skyni gert en að varpa ryki í augu almennings því að það kemur málinu hreinlega ekkert við. Fyrirtæki greiða að sjálfsögðu þennan skatt með óbeinum hætti í dag.