Tilkynning frá ríkisstjórninni

59. fundur
Mánudaginn 23. nóvember 1992, kl. 15:40:30 (2531)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um að hv. formaður þingflokks Alþb. gerði hreint fyrir sínum dyrum og ég er ánægður með það að við erum sammála um þetta. Ef við ætlum að koma á fjármagnstekjuskatti, sem er stefnumál þessarar ríkisstjórnar, verður það að gerast með þeim hætti að lágmarkssparnaður almennings í landinu sé verndaður undir þaki fríeignamarks eða frítekjumarks og ef það er sjónarmið Alþb., þá erum við sammála um þetta. Þá erum við líka sammála um næsta atriði. Nefnilega það að að svo stöddu er ekki unnt að koma þeim skatti á fyrirvaralaust. Hann þarfnast meiri undirbúnings og það gildir jafnt um okkur sem stöndum að ríkisstjórninni og hv. alþýðubandalagsmenn. Þeir eru hér að gera grein fyrir tillögum sem eru allt aðrar en þær tillögur sem lagður voru fram af hálfu aðila vinnumarkaðarins. Ég skal láta það koma skýrt fram að af hálfu vinnuveitenda er einmitt svona skattform, fjármgnstekjuskattur með frítekjumarki, ég tala nú ekki um ef hann er eingöngu á raunvexti, mál sem Vinnuveitendasamband Íslands hefur lýst algerri andstöðu við öfugt við Alþfl., Alþb. og stjórnarflokkana.