Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:17:25 (2543)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Alþb. hefur lagt fram tillögu um að það yrði tekið af fjármagnseigendum og þeir látnir borga í þetta púkk á næsta ári en Sjálfstfl. hefur ákveðið að fjármagnseigendur eigi ekki að borga krónu í þennan pott á næsta ári. Ef Sjálfstfl. vill sækja fjármagnið þangað sem það er til þá er auðvitað hægt að ná samstöðu um það við okkur. Það eru hins vegar merkileg tíðindi að sjútvrh. lýsir því hér yfir að ekki verði gripið til frekari aðgerða. Þar með er auðvitað ljóst að dómi forráðamanna í íslenskum sjávarútvegi að stór hluti fyrirtækja í sjávarútvegi verður gjaldþrota á næsta ári vegna þess að greinin býr enn þá við 4--5% tap að lágmarki að þeirra dómi. Það verða því nokkuð mörg byggðarlögin á þeim fræga lista sem hæstv. sjútvrh. las upp á fundinum á Akureyri sem verða að búa við gjaldþrotastefnuna á næsta ári ef þetta verður niðurstaðan.