Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:20:46 (2546)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil minna hv. þm. á að í dag er lagt rúmlestagjald á fiskiskip sem lagt var á með

atkvæði hans sjálfs. Það er einn þátturinn í þessum aðgerðum og verður flutt yfir í þennan nýja sjóð og felur ekki í sér neina hækkun. Það er lagt gjald á í dag með sölu á veiðiheimildum og það er lagt til að breyta því og færa yfir í fast gjald. Og það er lagt til, og það er viðbótin, að það verði lagt sambærilegt gjald á fiskvinnslufyrirtækin eins og lagt er á útgerðarfyrirtækin til úreldingar af því að það er verið að útvíkka þessa starfsemi og láta hana taka einnig til fiskvinnslufyrirtækjanna. Ríkissjóður leggur svo þessum sjóði til 4.000 millj. kr. og það er ætlunin að sjávarútvegurinn með þessu gjaldi greiði þetta lán til baka og það fyrst eftir þrjú ár að þær endurgreiðslur hefjast. Og þess vegna liggur það alveg í augum uppi að þetta er ráðstöfun til hagsbóta fyrir sjávarútveginn. Hv. þm. hefur verið að gagnrýna það að gjaldið fyrir sölu veiðiheimildanna fari inn í ríkissjóð til Hafrannsóknastofnunar. Nú fer það ekki þá leið heldur beint til sjávarútvegsins aftur.