Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:23:00 (2548)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er alveg rétt að afkoma sjávarútvegsins hefur versnað en það vita allir hv. þm. ástæðurnar fyrir því og það vita allir þingmenn hvers vegna sjávarútvegurinn bjó við allþokkaleg rekstrarskilyrði á árinu 1990 og fram á árið 1991. Það var vegna þess að afurðaverðið var að hækka alveg stórlega á erlendum mörkuðum og gengisþróun var okkur mjög hagstæð. Ég ætla ekkert að taka það frá hv. þm. ef hann trúir því að það hafi verið fyrir tilverknað hv. 7. þm. Reykn. að við fengum hærra verð á erlendum mörkuðum og dollarinn hækkaði. Ef hv. þm. trúir því þá má hann gera það mín vegna og ég ætla ekki að taka þá ánægju frá honum.