Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 14:29:34 (2554)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Svar hv. 7. þm. Reykn. er viðurkenning á því að það er ekki hægt að bæta stöðu sjávarútvegsins meir nema með tilflutningi frá launafólki. Hvort það er frá þeim sem hafa meiri efni eða öðrum er svo sjálfstætt ákvörðunarefni. Ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að leggja skatt á hærri tekjur einmitt til að koma til móts við þetta sjónarmið. Ég er sammála því og hef verið lengi að eðlilegt væri að leggja skatt á fjármagnstekjur en hafa þar ákveðið frítekjumark og það er unnið að því á vegum ríkisstjórnarinnar þó að það sé ekki hluti af þessum aðgerðum. En ég minni hv. þm. á, eins og ég gerði gagnvart hv. 8. þm. Reykn., að meginhlutinn af sparnaðinum í landinu er sparnaður launafólks og stór hluti af þeim sparnaði er í eigu þeirra sem eru með meðaltekjur og jafnvel minna en það. Og við megum ekki gleyma því í þessu sambandi að það er ekkert endilega verið að flytja byrðarnar yfir á þá sem breiðust hafa bökin vegna þess að sem betur fer eru það mjög margir almennir borgarar í þessu landi og almennir launþegar sem hafa sparað.