Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 15:30:14 (2565)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Svarið er já, hæstv. forsrh., og það er skaði að hæstv. forsrh. skuli ekki vita af þessu því mjög mikilvæg undirbúningsvinna var unnin í fjmrn. og kom m.a. út í svonefndri hvítri bók um skattlagningu fjármagnstekna haustið 1990. Það mál var komið mjög langt á framkvæmdastig, en núv. hæstv. ríkisstjórn hefur stungið því algjörlega undir stól og flytur hér reglulega við hver áramót, og mun gera ef hún lifir næstu og þar næstu áramót, tilkynningar um að þessu verði frestað um eitt ár í senn. Þannig virðist aðferðin eiga að vera. Varðandi ræður sem ég eigi eða eigi ekki frá árinu 1989, þá er ég alveg tilbúinn í umræður við hæstv. forsrh. um það. Ég tel að þróunin, áhrifin af þeim aðgerðum sem gripið var til 1988 og 1989 og aðstæður í íslenskum efnahags- og atvinnumálum á árunum sem í kjölfarið fóru 1990 og 1991 segi allt sem segja þarf um það að þær ráðstafanir tókust. Þær skiluðu okkur jafnvægi, þær skiluðu jákvæðri afkomu sjávarútvegsins og þær skiluðu bættum kaupmætti á nýjan leik.
    Hæstv. forsrh. hefur mikið verið sakaður um að vilja ræða fortíðina og þetta er angi af því. Nú er það komið í ljós að ríkisstjórnin hefur líka áhuga á framtíðinni, þ.e. þegar komið er inn á mitt næsta kjörtímabil. Þetta er ákaflega sérkennilegt hvernig hæstv. ríkisstjórn reynir sífellt að flýja nútímann, annaðhvort með því að ræða um fortíðina eða framtíðina á miðju næsta kjörtímabili.