Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 16:01:35 (2571)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Hv. 1. þm. Norðurl. v. vitnaði til ræðu minnar á aðalfundi LÍÚ á Akureyri með heldur ómerkilegum útúrsnúningum eins og hans er háttur. Ég nefndi sem dæmi í þeirri ræðu um umfang þess ef 20% atvinnufyrirtækja í sjávarútveginum færu á hausinn, hvert það væri, vegna þess að í opinberri umræðu hafði verið af gáleysi talað um það að nauðsynlegt væri að setja 20% af fyrirtækjum í sjávarútvegi á hausinn til þess að bæta afkomu hinna sem eftir eru.
    Ég nefndi til þess að sýna mönnum fram á hvert umfangið væri í þessu samhengi, hvernig það liti út ef 20% fyrirtækja í stærstu verstöðvum landsins færu á hausinn, þá legðist sjávarútvegur af í Reykjavík og í Vestmannaeyjum. Svo nefndi ég dæmi um það hvernig dæmið liti út ef fyrirtæki í minnstu verstöðvum landsins yrðu sett á hausinn til þess að fullnægja þessum óskum og það voru fyrirtæki á 37 stöðum.
    Hv. þm. veit það miklu betur en hann lét í skína að hér var ekki um að ræða neinn aftökulista af minni hálfu, enga spá um það að fyrirtæki á þessum stöðum færu á höfuðið, enda mjög skýrt tekið fram, og heldur ómerkilegt af hv. þm. að snúa út úr málflutningi með þessum hætti. Færi betur á að hann bæðist afsökunar á því þó ég eigi ekki von á að hann geri það. Það er ekki vani hv. þm. þegar hann beitir málflutningsbrögðum af þessu tagi.