Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 16:03:36 (2572)

     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Hæstv. sjútvrh. vildi meina að ég væri með ómerkilega útúrsnúninga og ég ætla ekkert að biðjast afsökunar á því en mér leiðist ef honum hefur sárnað þetta. Það var nefnilega ekki ég sem fann upp á því að kalla þetta aftökulista. Það var annar maður. Það var starfsbróðir hæstv. sjútvrh., Jón Baldvin Hannibalsson, hæstv. utanrrh., sem kallaði þessa upptalningu hæstv. sjútvrh. aftökulista. Það var ekki ég sem átti þá nafngift enda ekki eins orðheppinn maður og hæstv. utanrrh. Ég verð að játa það að ég hafði meiri samúð með málflutningi hæstv. sjútvrh. en hæstv. utanrrh. á fundinum á Akureyri og ég vildi sannarlega óska þess að hæstv. sjútvrh. hefði haldið þeim dampi sem hann hafði þar í góðra vina hópi meðal útvegsmanna á Akureyri. Ef hann hefði haldið honum í gegnum þessa hrinu, þá væri hag sjávarútvegsins betur gætt en hefur orðið í þessum næturverkum núna.
    Varðandi það þegar hann er að agnúast út í mig fyrir útúrsnúninga og að halda á lofti þessum orðaleppum hæstv. utanrrh., þá er það alveg eins og í gamla daga þegar Rússar voru að skamma Albani þegar þeir meintu Kínverja. Ég held að hann ætti að snúa sér að því að tala yfir hausamótunum á hæstv. utanrrh. og ég vildi sannarlega að hann gripi til þess ráðs af sinni alkunnu snilld.