Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 16:20:43 (2574)


     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Hinn gullni meðalvegur var sú nafngift sem hæstv. utanrrh. gaf þessu plaggi sem verið er að ræða í dag. Hann er sá eini af alþýðuflokksmönnum sem hefur tekið þátt í umræðu um þetta mál og það vekur auðvitað sérstaka athygli. Hann sagði fyrir nokkrum dögum, eins og margoft hefur verið endurtekið, að gengisfelling væri sú vitlausasta leið sem hægt væri að fara í stöðunni en hann er nú á þeirri leið. Það er kannski annar ráðherra sem ber ekki minni ábyrgð á þessu máli, þ.e. hæstv. forsrh. Hann hefur auðvitað haft ásamt utanrrh. þá lykla í höndunum sem hefði þurft til að ganga frá þessu máli með skynsamlegri hætti en hér var gert. Það var nefnilega greinilegt að fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu voru tilbúnir að leggja hönd á plóginn og tilbúnir að leggja mikið á sig til að hægt væri að skapa þjóðarsátt um að leysa þau stóru vandamál sem ekki er ágreiningur um að þurfi að leysa. En ríkisstjórnin hefur auðvitað opinberað það fyrir þjóðinni að hún þorði ekki að fara þessa leið vegna þess að hún var of veik að eigin mati til að fara þjóðarsáttarleið. Vegna þess að eftir að búið hefði verið að gera slíka þjóðarsáttarsamninga, þar sem hefði auðvitað orðið að taka á samningamálum aðila vinnumarkaðarins líka og hafa sáttina til lengri tíma en áður hefur verið, hefði ríkisstjórnin að áliti þeirra ráðherranna líklega verið talin hafa verið sett af af þeim sem hefðu komið að borðinu til viðbótar við hana. Þetta er auðvitað mikill misskilningur. Það hefði sýnt reisn og pólitískan kjark að þora að fara í alvöru viðræður um þjóðarsátt um þau stóru mál sem hér eru á ferðinni og hefur sumpart verið tekið á í þessu plaggi sem hér hefur verið lagt fram.
    Endalok þeirra þreifinga sem höfðu farið af stað með aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórninni eru mér þess vegna mikil vonbrigði. Við alþýðubandalagsmenn höfðum lýst því yfir að við vildum taka þátt í svona samningum og við vildum leggja eitthvað á okkur til að kanna möguleikana á því að þjóðin gæti sameinast um niðurstöðuna. Nú er í raun búið að vísa þessu máli frá, ríkisstjórnin hefur tekið málið í sínar hendur. Hún hefur lagt það hér á borð. Hún hefur notað tækifærið til að fara í alls konar hrossakaup um þau mál sem hafa verið óafgreidd innan ríkisstjórnarinnar. Og það er margt sem þar hefur verið uppi á borðum.
    Mig langar til að fara örfáum orðum um sum þau atriði sem hér koma fram en það er búið að gera þeim það góð skil að ég ætla ekki að eyða í það miklum tíma. Í þessu plaggi sem við höfum hér var sagt að mikilvægasta vörnin fyrir þá sem lægst hafa launin væri að varðveita stöðugleikann enda væri það meðal meginmarkmiða aðgerðanna. Það er afar merkilegt vegna þess að í plagginu sjálfu stendur að það sé gert ráð fyrir að kaupmáttur launa verði ekki bættur að því leyti til sem hann skerðist vegna þessara aðgerða. Og mér skilst að geti verið um 4% kaupmáttarrýrnun að ræða.
    Um aðstöðugjaldið vil ég segja að ég er samþykkur því að menn leiti leiða til að afnema það. En það er auðvitað afleitt að setja málið í slíka biðstöðu eins og er gert með fleiri mál í þessum samningum ríkisstjórnarflokkanna. Að menn ákveða að gera einhverja hluti en fresta því fram í framtíðina að taka á því hvernig eigi að bæta fyrir það sem verið er að taka ákvarðanir um. T.d. er því frestað um heilt ár að taka afstöðu til þess með hvaða hætti eigi að bæta sveitarfélögunum upp aðstöðugjaldið og þau skulu sækja peninga til ríkissjóðs á meðan. Og það verður auðvitað fróðlegt að fylgjast með því þegar borgarstjórinn í Reykjavík, Markús Örn Antonsson, kemur og sækir meira en helminginn af því fé sem fer til sveitarfélaganna til hæstv. ráðherra Friðriks Sophussonar.
    Sumt af því sem verið er að setja fram í þessu plaggi höfum við auðvitað séð áður og ég hirði ekki um að fara sérstaklega yfir það þó að það sé lagt fram sem hluti af þessum aðgerðum. Mig langar samt til að nefna þá upphæð sem talað er um að eigi að verja til aðgerða í atvinnumálum á Suðurnesjum. Nú vil ég taka það fram alveg sérstaklega að ég er ekki að tala gegn því að eitthvað sé gert til að rétta við atvinnulífið á Suðurnesjum, en mér finnst afar sérkennilegt að í almennum aðgerðum, sem verið er að ræða, skuli lagðar fram 500 millj. kr. úr ríkissjóði til eitthvers einstaks svæðis. Það er auðvitað atvinnuleysi víðar um landið og menn hljóta að skilja að eðlilegra hefði verið að einhver upphæð hefði verið lögð fram til sérstakrar atvinnuaukningar á svæðum þar sem atvinnuástandið er mjög slæmt og það hefði síðan verið vegið og metið hvar þessir peningar ættu að koma niður. Í því plaggi sem ríkisstjórnin kynnir segir að það eigi að setja 500 millj. kr. á eitt sérstakt svæði á landinu. Þetta finnst mér ádeiluvert og ég vil að það komi hér fram.
    Það er auðvitað sorglegt að sjá það að menn skuli hafa samið um það að tekjuskattshlutfallið verði hækkað á öllum einstaklingum í landinu um 1,5%. Ég tel að það hafi verið slys að menn skyldu ekki ná saman um það að setja myndarlegra tekjuskattsþrep á hærri tekjur þannig að þeir sem meira hafa úr að spila leggi meira til í þessum aðgerðum sem verið er að tala um.
    Þá er ég kominn að þeim breytingunum á virðisaukaskattinum, þ.e. þessu nýja 14% þrepi sem ég ætla sérstaklega að gera að umtalsefni vegna álagningarinnar á húshitun í landinu. Þetta er nefnilega gjald sem kemur misjafnlega niður á fólk. Þeir sem búa við dýrustu hitaveiturnar munu borga mest í ríkissjóð fyrir að hita upp húsin sín. Það er auðvitað ákaflega ósanngjarnt og mun bætast ofan á þær hækkanir sem þessar hitaveitur sem mest skulda þurfa að fá á sínum gjöldum því að það helst auðvitað í hendur að þær

hitaveitur sem mest skulda eru auðvitað með hæstu gjaldskrárnar. Þær munu þess vegna borga mesta virðisaukaskattinn og þær munu auðvitað þurfa að hækka sína gjaldskrá vegna hækkandi skulda vegna gengisfellingarinnar. Þannig leggst þetta saman og mun koma verst niður á þá sem verst standa fyrir. Og ég ætla satt að segja að vona að menn beri þá gæfu til þess að taka á þessu máli sérstaklega og til þess duga ekki þær 80 millj. sem eru í fjárlagafrv.
    Svo er hér um að ræða hækkun á bensíngjaldi um 1,50 kr. og er það alveg sérstakur kapítuli út af fyrr sig. Hér hefur ríkisstjórnin hrósað sér af því dag eftir dag, viku eftir viku að hún sé að setja sérstaka peninga í auknar framkvæmdir í vegagerð og gott og vel með það. En hvað hefur verið að gerast á sama tíma? Á sama tíma hafa tekjustofnar Vegasjóðs skipulega verið færðir í ríkissjóð og nú er svo komið að um er að ræða tæpar 700 millj. af tekjum Vegasjóðs sem renna beint í ríkissjóð. Ef við bætum kostnaðinum vegna ferju og flóabáta, sem eru færðar yfir á Vegagerðina með fjárlögunum núna, er búið að flytja tekjur og gjöld yfir á Vegasjóð frá ríkissjóði samtals upp á 1 milljarð 24 millj. kr. Á móti á svo Vegasjóður að taka 1.800 millj. kr. lán til að bæta sér þetta upp. Hvers konar leikfimiæfingar eru þetta? Vegasjóður verður auðvitað að borga lánin til baka og þetta kemur út í framtíðinni sem veruleg skerðing á framlögum til vegamála. Það hljóta allir menn að sjá. Ég sé ekki hvers vegna hefði ekki verið eðlilegast að leyfa Vegasjóði að njóta teknanna af þeim gjöldum sem í hann eiga að renna og láta lánið sem hann hefði tekið til að auka framkvæmdir vera lægra.
    Annars var mér efst í huga, virðulegi forseti, að ræða sérstaklega um þessa svokölluðu fjárhagslegu endurskipulagningu í sjávarútvegi. Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. verði viðstaddur. Ég mun ekki hafa mjög langt mál um þetta en ég óska eftir því að hann verði viðstaddur meðan ég flyt það mál. Áður en hann kemur langar mig til þess að koma að vaxtamálunum. Ég nenni ekki að hafa langt mál um þau, svo aumlegt er það sem um þau stendur í plagginu. Auðvitað er niðurstaðan sú að vextirnir verða háir áfram. Það er allt saman loðið og teygjanlegt sem hér er verið að tala um og best færi á því að menn gæfu yfirlýsingu um að það væri ekki hægt að lækka vexti. Hæstv. viðskrh., Jón Sigurðsson, hefur þó sagt það beint út að hann telji enga möguleika á því að lækka vexti. Hér er verið að gefa í skyn að hugsanlegt sé að vextir lækki á sama tíma og gert er ráð fyrir að ríkissjóður taki 4 milljarða kr. lán vegna þessa sjóðs sem á að úrelda fiskiskip og fiskvinnslustöðvar og ég ætla að koma að á eftir. Þar er að ýmsu að gá. Sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr lýsti því yfir í sínum samstarfssamningi að hún ætlaði sér að láta endurskoða lögin um stjórn fiskveiða með það fyrir augum að eignarréttarákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða yrði virt, virðulegi forsrh. Ég man ekki betur en virðulegur forsrh. hnykkti á því í fyrstu ræðu sinni í þinginu að það ætti að standa að þessu með því móti að tryggja að þjóðin ætti auðlindina.
    Nú hafa síðustu dagana verið að berast fréttir af endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar og með hvaða hætti ber þetta að? Við í sjútvn. höfum ítrekað spurt eftir hvað væri að gerast í þeirri nefnd sem ríkisstjórnin setti á laggirnar til að endurskoða lögin um stjórn fiskveiða og koma með tillögur í þeim málum. Við höfum tvisvar séð þessa menn á fundum okkar. Í hvorugt skiptið kom neitt fram um það með hvaða hætti ætti að taka á þessum málum. Fyrir fáeinum dögum sagði hæstv. sjútvrh. að ekki næðist samkomulag í nefndinni og best væri að framlengja lögin um stjórn fiskveiða óbreytt og gefa kerfinu betri reynslutíma. Í Morgunblaðinu í dag stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Síðan var það í sumar, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, að þeir Magnús Gunnarsson og Þröstur Ólafsson náðu um það samkomulagi sem fól í sér þá málamiðlun sem gerði það að verkum að báðir aðilar voru nokkuð sáttir, þ.e. að grundvallarreglan um veiðileyfagjald yrði samþykkt en útgerðaraðilar hefðu ákveðinn aðlögunartíma, sem nú hefur verið ákveðinn fjögur ár, ásamt því að tekjur sem öfluðust fyrir úthlutun veiðileyfa rynnu til þess að endurskipuleggja sjávarútveginn í landinu. Þessi grundvallaratriði hafa síðan verið í vinnslu innan nefndarinnar svo og á milli þeirra Jóns Baldvins Hannibalssonar og Þorsteins Pálssonar. Í síðustu viku lá svo fyrir að samkomulag í þessa veru var í sjónmáli en endanleg niðurstaða í málinu fékkst ekki fyrr en undir hádegi í gær og hafði þá mikið gengið á um helgina, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Undir hádegi í gær hittust þeir Þorsteinn Pálsson sjútvrh., Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh., Davíð Oddsson forsrh. og Friðrik Sophusson fjmrh. ásamt fulltrúum nefndarinnar og gengu frá því samkomulagi sem forsrh. greindi svo frá á Alþingi eftir hádegi í gær.``
    Þetta fer ekki alveg saman. Fyrir nokkrum dögum sagði hæstv. sjútvrh. að það væri ósamkomulag í nefndinni og ekki neins að vænta þaðan. Nú langar mig að spyrja hæstv. sjútvrh.: Er þetta bara skrök í Mogganum?
    Morgunblaðið fjallar mikið um þetta mál í dag og það er þó nokkur lesning að fara í gegnum það. Ég ætla ekki að gera það í ræðustól en mig langar að benda á fáein atriði sem þar koma fram. Það kemur nefnilega fram í Morgunblaðinu að það sé mikill mismunur á því hverju menn svara þegar Morgunblaðið er að spyrja sjútvrh., forsrh., forustumenn í sjávarútvegi eða forustumenn Alþfl. Þar er verulegur munur á því hvernig menn líta á þetta samkomulag. Það er eins og menn séu ekki að tala um sama samkomulagið. Sjútvrh. lætur í það skína að hér sé eingöngu um að ræða gjald sem eigi að vera sem næst svipað og það gjald sem menn hafa borgað í Hagræðingarsjóð en fulltrúar Alþfl. fullyrða að hér sé á ferðinni auðlindaskatturinn þeirra. Það sé búið að ákveða að auðlindaskatturinn eigi að vera frambúðarlausnin í sjávarútvegsmálum og undir það hafi alþýðuflokksmenn verið að skrifa. En sjálfstæðismenn hafa ekki verið að skrifa undir það og Kristján Ragnarsson er hinn kátasti og segir að nú sé búið að tryggja framtíðarskipulag í sjávarútvegi. Það verði óbreytt kvótakerfi áfram og enginn auðlindaskattur. Eitthvert smágjald í Hagræðingarsjóð og búið. Hér fara aldeilis ekki saman orð þeirra sem ættu að hafa verið að semja um þessi mál.
    Ég tel að við þurfum að fá skýringu á þessu. Mig langar að spyrja forsrh. hvernig hann geti sætt sig við að stjórnarsáttmálinn sé brotinn. Í honum stendur mjög skýrum stöfum að eignarréttarákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða verði gerð virk og það eigi að felast í endurskoðuninni um stjórn fiskveiða. Það er auðséð að ef sjútvrh. hefur rétt fyrir sér og ef Kristján Ragnarsson hefur rétt fyrir sér, þá hefur ekki tekist að uppfylla þetta ákvæði stjórnarsáttmálans.
    Ég reyndi að spyrja hæstv. sjútvrh. að því í andsvari við ræðu hans í dag með hvaða hætti ætti að standa að þessu máli. Hann vék sér undan því að svara og talaði óljósum orðum um það hvernig ætti að fara með þessi gjöld og sagði hreinlega að það ætti eftir að útfæra þetta. Hvernig í ósköpunum á maður að trúa því þegar verið er að tala um svo stórt mál og þetta að menn hafi ekki gengið frá því hvort útgerðarfélögin í landinu ættu að fara að borga úreldinguna á fiskvinnslustöðvunum. Mig langaði bara að fá svar við því hreint og klárt. Já eða nei. Og ég spyr hæstv. sjútvrh. aftur: Er ekki hægt að fá svar við því? Var það niðurstaðan að útgerðarfélögin landinu ættu að borga úreldingu fiskvinnslustöðvanna? Svona samkomulag gera menn einfaldlega ekki nema ganga frá slíku máli. Það eru alveg hreinar línur.
    Það er svo auðséð að úrelding fiskvinnslustöðvanna getur ekki farið fram með þeirri fjármögnun sem gert er ráð fyrir í þessu dæmi. Fasteignagjöld fiskvinnslustöðva geta engan veginn borið uppi úreldingu þeirra. Það hljóta allir menn að sjá og þess vegna þarf þetta svar að koma. Auðvitað þurfa allir að gera sér grein fyrir því að þarna er á ferðinni gífurlegur tilflutningur á fjármunum og meining a.m.k. alþýðuflokksmanna, sem hafa staðið að þessu samkomulagi, er sú að útgerðin í landinu eigi að greiða þennan herkostnað allan saman. Hún eigi að borga það sem sjóðirnir, sem á að steypa saman við þróunarsjóðinn, skulda og í framtíðinni eigi þetta síðan að verða auðlindaskatturinn sem þeir hafa talið sig vera að berjast fyrir.
    Ég veit ekki hvort það hefur út af fyrir sig nokkra þýðingu að halda um þetta langa ræðu. Ég tel að þarna hafi verið á ferðinni hrikaleg hrossakaup. Eitt af því sem tekist var á um í þessu sambandi var sjávarútvegssamningurinn við EB. Það gerðist að sjútvrh. er búinn að segja okkur það svo til beinum orðum að samninganefndin hafi umboð til ganga frá þeim samningum. Ég tel að niðurstaðan af þessu sé sú að Sjálfstfl. sé búinn að gefa það eftir til Alþfl. vegna EES-málsins að það eigi að ganga að þessum samningi hvernig svo sem hann kemur til með að líta út. Um það ætla ég ekki að spá. Ég ætla satt að segja að vona að menn nái þeim markmiðum sem upp hafa verið sett, en ég tel að hér sé á ferðinni herkostnaðurinn, að við eigum að hleypa erlendum aðilum inn í landhelgina til þess að EES-samningurinn fái að fara í gegnum þingið.