Tilkynning frá ríkisstjórninni

60. fundur
Þriðjudaginn 24. nóvember 1992, kl. 17:27:02 (2577)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 9. þm. Reykv. gerði nokkuð úr því í máli sínu í upphafi að ég hefði nefnt á flokksráðsfundi Sjálfstfl. að svo kynni að fara að flokkurinn yrði í einhverjum efnum að víkja nokkuð frá sínum ýtrustu stefnumálum. Þetta sagði þingmaðurinn að væri þess eðlis að ég hefði lýst því yfir að flokkurinn yrði lagður tímabundið niður og að ég hefði lagt flokkinn tímabundið niður. Ég vil minna þennan ágæta hv. þm. og fyrrv. hæstv. ráðherra í nokkrum ríkisstjórnum á að einu heilagasta kosningaloforði Alþb., sem var fylgt eftir með heitstrengingum og löngum labbitúrum sem hv. þm. tók þátt í sjálfur, um að reka herinn úr landi var af mikilvægum ástæðum jafnan ýtt til hliðar. Þessu mikilvæga stefnumiði Alþb. var jafnan vikið til hliðar um skeið en alltaf tekið fram að það væri ekki búið að svíkja það loforð. Því væri aðeins tímabundið vikið til hliðar. Þetta var ekki gert í einni ríkisstjórn og ekki tveimur heldur fleiri ríkisstjórnum --- aftur og aftur. Þessi ágæti hv. þm. hefur staðið að því, meira að segja sem formaður þessa flokks á þeim tíma, að leggja flokkinn niður, ekki einu sinni samkvæmt eigin kenningu heldur aftur og aftur. Hann fór síðan jafnharðan í labbitúrana og með heitstrengingarnar og 1. maí-ræðurnar, reyndar á öðrum tímum ársins. Hann ætti því ekki að tala í þessum dúr því þessa sögu þekkja menn afskaplega vel.
    Menn segja að í þessum aðgerðum felist ekki jöfnunaraðgerðir. Það er alveg rétt að þegar við unnum að þessum aðgerðum áður en hinar miklu hræringar urðu á gengismörkuðum var reynt að tryggja það með öllum tiltækum ráðum að þeir sem minnst bera úr býtum þyrftu að bera sem minnstan þunga aðgerðanna. Það hefði tekist. Við sögðum jafnan að gengisfellingarleið, sem sumir forustumenn flokka sem eru reyndar ekki í salnum vildu gjarnan að farin væri, a.m.k. að hluta eins og það var orðað, væri miskunnarlaus gagnvart launþegum. Eftir þær miklu hræringar sem urðu á gjaldeyrismörkuðum var óhjákvæmilegt, eins og þingmenn vita í hjarta sínu a.m.k. og heilabúi, hvað sem þeir segja hér í stólnum, að breyta gengi

íslensku krónunnar nokkuð. Þá kom það einmitt fram sem við höfðum áður sagt að það mundi gera það að verkum að minni jöfnunarblær yrði á þessum aðgerðum en ella. Þó er það nú þannig að kaupmáttarskerðingin sem menn tala um, sem er 4,4%, kemur þannig niður samkvæmt lauslegum útreikningum að þeir sem minnst bera úr býtum í þjóðfélaginu taka á sig rúm 3% en þeir sem mest bera úr býtum tæp 6%. Það er auðvitað ljóst að í þessum aðgerðum felst veigamikill og verulegur jöfnuður. Menn reyna að gefa þeim sem þyngri byrðar bera færi á því og stuðla að því að þeirra byrðar séu minni en ella.
    Hv. þm. nefndi aðstöðugjaldið sérstaklega og með hvaða hætti yrði ákvarðað að skipa þeim málum niður þegar þar að kæmi. Eðli þeirrar ákvörðunar er að menn fara ekki hér og nú að tíunda slíka þætti vegna þess, og ég veit að þingmaðurinn sem fyrrv. sveitarstjórnarmaður og fyrrv. yfirmaður sveitarstjórnarmála hefur fullan skilning á því, að við eigum að virða samstarfssáttmálann við sveitarfélögin og finna lausn í samráði við þau og gefa enga sérstaka forskrift í þeim efnum. Það hefur komið fram að sveitarfélögin og forsvarsmenn þeirra fagna því að sú leið er farin og þeir styðja það að sú leið er farin. Við vitum hins vegar að á mörgum bæjum þar hafa menn misjafnar skoðanir á því hvort aðstöðugjaldið ætti að fara eða ekki þótt þeir muni væntanlega, ef skaplega tekst til að halda á þessu máli, samþykkja það.
    Hv. þm. spurði líka með hvaða hætti ætti að taka af lífeyrissjóðunum þessi 5% sem nefnd voru. Það felast ekki í þessum aðgerðum nein áform um að taka taka þessar upphæðir af lífeyrissjóðunum, eins og það var orðað af hv. þm. Það hefur komið fram í viðræðum af hálfu ríkisstjórnar við forsvarsmenn lífeyrissjóðamanna að vilji sé til þess að binda það svo af þeirra hálfu og samkvæmt þeirra eigin ákvörðun að verja um 5% eða um 1.800 millj. á ári til þess að kaupa sjóðunum hlut í íslenskum fyrirtækjum. Það tel ég afskaplega mikilvægt og met mikils vilja þeirra í þeim efnum, tel það reyndar í þeirra þágu og þeirra umbjóðenda. Engu að síður kemur það sér afskaplega vel fyrir fyrirtækin og þjóðfélagið allt að menn skuli vera viljugir til þess í þessari stöðu.
    Ég tel að kaup þessara aðila á Þróunarfélaginu sem hv. þm. nefndi hafi verið afskaplega ánægjulegt spor í þessa átt og merki um að lífeyrissjóðirnir séu í vaxandi mæli að ganga þessa leið.
    Þingmaðurinn reyndi, bersýnilega með vondri samvisku því hann dró meira að segja í land síðar í ræðu sinni, að taka aðra hlið skattamálanna og mála alla upp. Hann sagði að hér væri einhliða verið að leggja skatta á fólk í þeim upphæðum sem hann nefndi. En auðvitað vissi hann og sagði það sjálfur að við mundum koma hér og segja að menn hlytu náttúrlega að hugsa til þess að aðstöðugjaldinu væri létt af en það væri, ef ég skildi hann rétt, aumur peningaþvottur eða peningaþvætti ef við gripum til þeirra úrræða. Hann nefndi það sjálfur, svona til að hafa vara á, því hann vissi að það væri auðvitað hárrétt, að við mundum og eigum auðvitað að taka tillit til þessara þátta. Annað er ómerkilegur málflutningur en ekki ómerkilegur þvottur að koma því við. Auðvitað og það vita allir menn að þá er aðstöðugjaldið borgað fyrr en síðar og þó a.m.k. fyrr en síðar af borgurum þessa lands. Vegna þess að hinir ágætu hv. þm. tala í öllu þessu gagnrýnisflóði mikið um tilfærsluna upp á rúma 6 milljarða kr. en um leið gagnrýna þeir að ekki hafi náðst full samstaða eða fullt samráð við aðila vinnumarkaðarins í þessum efnum. Ég hlýt að benda á og minna á að þessir aðilar voru að ræða um tilflutning af þessu tagi upp á 9 milljarða tæpa en ekki 6 milljarða eins og niðurstaðan varð. Þessir aðilar voru að tala um tilflutning í þessum efnum frá fólki og fyrirtækjum upp á tæpa 9 milljarða en niðurstaða ríkisstjórnarinnar eru 6 milljarðar. Ef þessir ágætu hv. þm. eru að gagnrýna ríkisstjórnina með þeim hætti fyrir þessa 6 milljarða, þá eru þeir í raun að beina skeytum sínum að þeim aðilum sem vildu ræða og ég tel að það hafi verið mjög athyglisvert og skynsamlegt í raun að ræða málin á þeim grundvelli. Þeir voru tilbúnir til þess að flytja með þessum hætti tæpa 9 milljarða kr. frá fólki og fyrirtækjum eins og þetta er orðað þótt það sé kannski vafasamt að orða það með þessum hætti.
    Varðandi þessar 500 millj. kr. annars vegar sem þingmaðurinn spurði um og ætlaðar eru til verkefna á Suðurnesjum sérstaklega, þá hafði farið fram umræða opinberlega um þá þætti í þjóðlífinu fyrir nokkru. Menn vita að hugsunin er sú að þar komi 300 millj. kr. frá Íslenskum aðalverktökum og fyrirtækjum sem þeim tengjast og 200 millj. frá öðrum fyrirtækjum og sveitarfélögum á Suðurnesjum. Hugsunin er sú að veita slíkum fjármunum til atvinnuskapandi verkefna þar. Þær 500 millj. sem síðan er rætt um að bæta við mundu koma fram í gegnum fjárlagafrv. Það liggja þegar fyrir úttektir sem atvinnumálanefnd ríkisstjórnarinnar óskaði eftir frá ýmsum ráðuneytum um stöðu viðhaldsverkefna og þarfa varðandi opinberar byggingar sem gætu komið til athugunar þegar þessum framlögum verður deilt út.
    Varðandi útgáfu húsbréfanna, þá er það alveg rétt hjá hv. þm. að þetta orðalag varð auðvitað niðurstaða í ríkisstjórn eins og allt annað sem þar er sett á blað. Það er mat sérfræðinga að gera megi ráð fyrir því að húsbréfamarkaðurinn dragist saman á næsta ári og menn tala í því sambandi um tölur á bilinu 2--3 milljarðar króna.
    Varðandi þá setningu sem hv. þm. nefndi í plagginu sem að vaxtamálum snýr og taldi að mundi fá --- ekki bókmenntaverðlaun en einhver áþekk verðlaun á bókmenntavísu, þá finnst mér sú setning reyndar ekki mjög flókin. Ég bendi á að aldrei þessu vant þegar menn ræða um vexti gera menn meira við þessa yfirlýsingu en að ræða um vexti. Þegar hefur fylgt í kjölfar þessara orða frv. á Alþingi. Menn negla niður að lögum um dráttarvexti verði breytt og það fylgir strax að dráttarvextir verði lækkaðir um 2--2,5% eða dráttarvaxtaálagið. Jafnframt eru sköpuð skilyrði þess að bindiskyldu megi lækka og það er ekki ágreiningur um að lækkun bindiskyldu er til þess fallin að gera bönkunum kleift að lækka hjá sér vexti. Við vildum ekki vera með óábyrgar hástemmdar yfirlýsingar um lækkun vaxta eins og stundum hafa tíðkast heldur vinna í raun að því með aðgerðum, sem sumir hér í salnum hafa gert kröfu um, að vextir gætu ekki lækkað heldur mundu þeir hækka á tímabilinu og festa niður aðgerðir sem munu leiða til þess að sköpuð eru skilyrði til að vextir megi í framtíðinni lækka.
    Hv. þm. spurði: Hversu mikla vaxtalækkun er verið að tala um? Með hliðsjón af þeim orðum sem ég nefndi er ekki rétt að vera með ágiskanir um það. Hins vegar var það rétt og eðlilegt, vegna þess að menn eru að reyna að meta áhrif vaxtanna á afkomu atvinnulífsins, að sú tala 0,5% sem Þjóðhagsstofnun nefnir kæmi þar fram. Öll vaxtalækkun gæti þá í hugum manna mælst mjög fljótlega og hvað hún gæfi atvinnulífinu í aðra hönd. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé mjög mikilvægt verkefni sem ríkisstjórnin hefur lagt í, ekki bara með yfirlýsingum heldur með því að hefja þegar aðgerðir í þá veru að tryggja það að vextir megi lækka.
    Varðandi þá fjárhæð, um 1.240 millj. kr., sem rætt er um í yfirlýsingunni að verði skorin niður af útgjöldum fjárlaganna, þá hafa þessir liðir ekki verið ræddir til fulls í þingflokkum stjórnarflokkanna, fjarri því. En þetta markmið er á hinn bóginn sett og mun koma fram við frekari vinnslu fjárlaga eins og reyndar margt af því sem tengist þeim þáttum sem hv. þm. vék að í ræðu sinni.
    Hv. þm. hafa margir hverjir talað um að það væri ekki nógu mikil samstaða um þessar aðgerðir, að samstöðuna vantaði, og vitnað til baka til 1990. Ég tel fyrir mitt leyti að það sem skorti á samstöðu hér varðandi aðgerðirnar sé það sem ekki skorti 1990. Það skortir nefnilega ábyrga stjórnarandstöðu. Stjórnarandstaðan þá var ábyrg og tók með ábyrgum hætti á málunum. Þess vegna var samstaðan fyrir hendi. Það er ekki við stjórnina að sakast um það núna. Það er miklu fremur við þá að sakast sem sundrunginni valda, hina óábyrgu stjórnarandstöðu, sem er í þessum sal
     Hér sat hv. þm. sem í einn og hálfan mánuð gekk um ábyrgur og var sjálfum sér ólíkur. Nú er hann kominn í sama gamla farið og sumir þingmenn segja að þeir kunni miklu betur við hann þannig, í gamla yfirboðsfarinu. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Mér fannst hann líta alveg bærilega út sem ábyrgur stjórnmálamaður þennan einn og hálfan mánuð sem það stóð. Ég veit að þessi stutti tími reyndi mjög á þingmanninn en ég hafði vonast til þess að hann stæði þetta lengur af sér og hrykki ekki í gamla hjólfarið svo fljótt sem raun hefur orðið á. Það er miður fyrir hann því hann er formaður stjórnmálaflokks og það er nauðsynlegt að menn geti tekið stjórnmálaflokka nokkuð hátíðlega á þinginu.